Bandaríkin og Íran skiptust á föngum

Fangaskiptasamkomulagið náðist á tímum mikillar spennu á milli ríkjanna tveggja. …
Fangaskiptasamkomulagið náðist á tímum mikillar spennu á milli ríkjanna tveggja. Frá mótmælum við bandaríska sendiráðið í Teheran fyrir skemmstu. AFP

Írani sem hefur verið í haldi í Bandaríkjunum og Bandaríkjamaður sem hefur verið í haldi í Íran eru nú á leið til heimalanda sinna, eftir að ríkisstjórnir landanna komust að samkomulagi um fangaskipti.

Íranski vísindamaðurinn Massoud Soleimani og Bandaríkjamaðurinn Xiyue Wang munu brátt fá að hitta fjölskyldur sínar. Ráðamenn beggja landa þakka stjórnvöldum í Sviss fyrir að hafa tekið þátt í því að miðla málum.

Wang var í doktorsnámi í sagnfræði við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum er hann var handtekinn í rannsóknarferð um Íran árið 2016.

Soleimani, sem er prófessor í stofnfrumurannsóknum við háskóla í Teheran, var handtekinn við komuna til Chicago í Bandaríkjunum í fyrra, sakaður um að vera að flytja vaxtarhormón, stera, inn til Bandaríkjanna.

mbl.is