Grunaður morðingi að vakna úr dái

Jacky Kulik, faðir fórnarlambsins Elodie Kulik, sýnir fjölmiðlum mynd af …
Jacky Kulik, faðir fórnarlambsins Elodie Kulik, sýnir fjölmiðlum mynd af dóttur sinni. AFP

Franskur karlmaður, sem er sakaður um að hafa nauðgað og myrt unga konu á hrottafenginn hátt fyrir tæplega tveimur áratugum síðan, er hægt og rólega að vakna úr dái eftir að hann reyndi að taka eigið líf með því að gleypa skordýraeitur eftir að dómur var kveðinn upp í málinu á föstudag.

Mál mannsins, Willy Bardon, hefur árum saman vakið mikla athygli í Frakklandi, en glæpinn framdi hann árið 2002. Dómur var kveðinn upp í borginni Amiens í norðurhluta Frakklands á föstudag.

Bardon hafði verið dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir mannrán, en var sýknaður af ákæru um morð. Réttarhöldin tóku 13 daga og einungis nokkrum sekúndum eftir að dómur féll reyndi Bardon að taka eigið líf.

Bardon, sem er 45 ára gamall, er undir stöðugu eftirliti lögreglu á spítalanum.

„Hann er hægt og rólega að vakna úr dáinu en er ennþá í lífshættulegu ástandi. Eitrið sem hann tók inn er skordýraeitur sem er kallað Temik og það er einstaklega hættulegt efni sem hefur áhrif á tauga- og æðakerfi líkamans,“ sagði saksóknarinn Alexandre de Bosschere í samtali við AFP-fréttastofuna. Hann bætti því við að ekki væri vitað hvernig Bardon náði að fela efnið þar sem hann undirgekkst líkamsleit fyrir réttarhöldin.

Rænt, nauðgað, kyrkt og brennd

Fórnarlambið var bankastarfsmaðurinn Elodie Kulik, þá 24 ára gömul. Henni var rænt og nauðgað. Síðar var hún kyrkt áður en lík hennar var brennt í janúar árið 2002 í Terty í Aisne-héraðinu í Frakklandi.

Áður en hún var myrt náði Kulik að hringja á neyðarlínunna og var það upptakan af því símtali lykilsönnunargagn í réttarhöldunum. Sex vitni sögðust þekkja rödd Bardon á upptökunni en hann neitaði sök allan tímann.

„Það er ljóst að hr. Bardon reyndi að taka eigið líf. Hann sagði ítrekað að hann gæti ekki farið aftur í fangelsi,“ sagði lögmaður hans Stephane Daquo í samtali við AFP. Daqou bætti því við að það rannsókn lögreglu væri gloppótt.

Erfðaefni úr öðrum manni, Gregory Wiart, fannst á vettvangi en hann lést árið 2003.

Uppfært: Ranglega sagði í fyrri útgáfu fréttarinnar að Bardon hefði legið í dái í tæpa tvo áratugi. Hið rétta er að hann hefur verið í dái frá því á föstudag, þegar hann var dæmdur fyrir glæp sinn, sem framinn var árið 2002. Lesendur eru beðnir velvirðingar á þessum mistökum.

mbl.is