Þú ert nauðgarinn!

Þúsundir kvenna mótmæltu kynferðisofbeldi á þjóðarleikvanginum í höfuðborg Chile, Santiago, nýverið. Textinn sem konurnar sungu: „Sökin er ekki mín, ekki hvar ég var né heldur hvernig ég var klædd [...] Þú ert nauðgarinn!“

Konur á öllum aldri, svartklæddar og með bundið fyrir augum, streymdu á íþróttaleikvanginn eftir að boð voru látin út ganga á samfélagsmiðlum. 

„Sökin er ekki mín, ekki hvar ég var né heldur hvernig ég var klædd [...] Þú ert nauðgarinn!“ sönglaði hópurinn, stappaði niður fótunum og lyfti höndum upp til himins. Svipað og konur hafa gert út um allan heim undanfarnar vikur. Svo sem í París, Barcelona og Mexíkóborg.

Femínistasamtökin LasTesis í strandbænum Valparaiso voru fyrst til þess að búa til atburð sem þennan. Var það gert eftir að fréttir bárust af ofbeldi lögreglu í garð kvenna á sama tíma og ríkisstjórninni var mótmælt víða um land. 

Mótmælin í Chile brutust fyrst út um miðjan október vegna hækkunar á lestarfargjöldum en þau hafa stigmagnast síðan. Ekki hafa verið jafn mikil og víðtæk mótmæli í landinu síðan í lok valdatíðar einræðisherrans Augusto Pinochet fyrir tæpum 30 árum. 

Yfir 3.500 konur voru drepnar í kynbundnum ofbeldisverkum í rómönsku Ameríku í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert