Fleiri myrða í vímu

Norskir lögreglumenn með alvæpni við eftirlit við Grand Hotel í …
Norskir lögreglumenn með alvæpni við eftirlit við Grand Hotel í miðbæ Óslóar í desember í fyrra. Þrír af hverjum fjórum gerendum í norskum manndrápsmálum ársins 2019 voru í vímu er þeir frömdu verknað sinn samkvæmt skýrslu rannsóknarlögreglunnar Kripos sem kom út í dag. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Gerendur í vímu frömdu þrjú af hverjum fjórum manndrápum í Noregi í fyrra, eða 75 prósent, sem er umtalsverð aukning sé litið til meðaltals áranna 2010 — 2019 sem er 51 prósent. Þessi tölfræði er afhjúpuð í nýrri skýrslu norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos sem gerð var opinber í dag og byggir á gögnum úr refsimálagagnagrunni lögregluembætta landsins og lögregluskýrslum.

Árið 2019 voru 28 manns myrtir í Noregi. Í hverju máli fyrir sig lá einn einstaklingur undir grun og var 21 þeirra 28 í vímu á verknaðarstundu.

„Þetta er há tala og hátt hlutfall en við þurfum að skoða tölfræðina yfir langt tímabil til að slá því föstu að um breytingu sé að ræða,“ segir Thomas Clausen vímuefnarannsakandi (n. rusforsker) við norska ríkisútvarpið NRK í dag. Kripos bendir um leið á að vegna þess hve fá manndráp eru framin í Noregi (Norðmenn voru rúmar 5,3 milljónir við lok þriðja ársfjórðungs 2019) geti eitt eða fá mál orsakað miklar tölfræðisveiflur.

Vímuástand oft afgerandi þáttur

Clausen segir vímuástand aðeins vera einn þátt í málunum, oftast komi fleiri ástæður eða orsakir saman í manndrápsmálum. Hann segir þó fulla ástæðu til að draga þá ályktun að áhrif áfengis, vímuefna eða hvors tveggja ýti undir það að látið sé sverfa til stáls og aðstæður fari úr böndunum.

„Ég hugsa að sum þessara manndrápa hefðu ekki átt sér stað hefði vímuástand geranda ekki komið til,“ segir hann enn fremur.

Samkvæmt heildartölfræði Kripos yfir vímuástand gerenda í manndrápsmálum árin 2010 — 2019, alls 312 manns, voru 119 ekki undir neinum áhrifum, óljóst var með 33 en alls voru 160 undir áhrifum vímuefna og var skiptingu milli vímugjafa svo háttað að 63 voru undir áhrifum áfengis, 43 höfðu neytt ólöglegra fíkniefna, 15 lyfja, það er læknadóps svokallaðs, og að lokum voru 39 í vímu sem sprottin var af fleiru en einum framangreindra flokka.

Vibeke Syversen, yfirmaður ofbeldisbrotadeildar Kripos, segir tölurnar áhyggjuefni og þarft verk að fylgjast með því hvort sú þróun haldi áfram að æ fleiri gerendur í manndrápsmálum séu undir áhrifum. Hún segir Kripos þó ekki liggja yfir slíkri tölfræði en þeir sem það geri skyldu fylgjast grannt með.

„Nú ríður á að lögregla og stuðningsaðilar (n. hjelpeapparat) taki þessum merkjum af alvöru. Að baki allra þessara talna liggja djúpstæðir harmleikir sem snerta marga,“ segir Syversen við NRK.

Hnífar og eggvopn algengustu drápstól

Í skýrslu Kripos kemur enn fremur fram að hnífar og eggvopn eru algengustu drápstól í 286 norskum manndrápsmálum árin 2010 — 2019, slíku var beitt í 138 eða í 54 prósentum tilfella. Næst í röðinni eru sljó áhöld, það er að segja ekki oddhvöss og hér undir líka þegar manneskju er hrint eða hún fellur og fær banvænt höfuðhögg, slík tilfelli eru 46, kyrking 41 tilfelli, skotvopn 28, axir 15, annað 14 tilfelli og óþekkt vopn eða áhald fjögur tilfelli.

Útlendingar eða norskir ríkisborgarar sem áður höfðu haft annað ríkisfang voru 36 prósent af þeim sem réðu öðrum bana árin 2010 — 2019, hin 64 prósentin voru Norðmenn í húð og hár. Af 28 gerendum í fyrra var 21 Norðmaður, þar af ein kona, en þjóðerni hinna sjö, einnar konu og sex karlmanna, var filippseyskt, finnskt, íranskt, íslenskt, lettneskt, súdanskt og sænskt.

NRK

NRK II (tölfræðin fyrir 2018)

NRK III (Kripos segir manndrápum fækka (2018))

ABC Nyheter

Dagsavisen (tvöfalt fleiri konur myrtar en karlmenn fyrri hluta 2019)

Skýrsla Kripos

mbl.is