Weinstein réðst á Haleyi í barnaherbergi

Weinstein á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann fundinn sekur …
Weinstein á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann fundinn sekur um alvarlegustu ákæruliðina. AFP

Mimi Haleyi, fyrrverandi aðstoðarframleiðandi, greindi frá því fyrir dómi í dag að Harvey Weinstein hefði þvingað sér til að veita henni munnmök á meðan hún var á blæðingum í barnaherbergi á heimili hans í New York.

Réttarhöldin í New York snúast um brot Weinstein gegn Haleyi og Jessicu Mann en brotin eiga að hafa átt sér stað árin 2006 og 2013.

Haleyi lýsti því hvernig Weinstein, sem er mun þyngri en hún, hafi fyrst virkað vinalegur. Síðan ýtti hann henni inn í barnaherbergið.

„Hann kyssti mig og þreifaði á mér,“ sagði Haleyi.

„Ég sagði honum allan tímann að ég vildi ekki að þetta gerðist,“ bætti Haleyi hálfgrátandi við.

Weinstein ýtti henni á rúmið og þvingaði sér til að veita henni munnmök eftir að hann tók tíðatappa úr henni.

„Ég reyndi að komast burt en áttaði mig á því að það myndi ekki gerast og fraus eiginlega,“ sagði Haleyi.

Rúmlega 80 konur hafa sakað Weinstein um kynferðisbrot. Búist er við að réttarhöldum yfir honum ljúki í mars en verði hann fundinn sekur um grófustu ákæruliðina á hann lífstíðarfangelsi yfir höfði sér.

mbl.is