Útlendingahatur á bak við árásir

AFP

Þýska lögreglan telur að útlendingahatur hafi legið á bak við skotárásir á tveimur vatnspípubörum í borginni Hanau í gærkvöldi. Árásarmaðurinn skaut níu til bana og tók eigið líf.

Nokkrum klukkustundum eftir að lík árásarmannsins fannst á heimili hans hefur hryðjuverkadeild alríkislögreglunnar tekið við rannsókn málsins. Vísbendingar hafa komið fram um útlendingahatur vígamannsins.

Heimildir þýskra fjölmiðla herma að á heimili hans hafi fundist textar og myndskeið sem tengjast útlendingahatri. Árásarmaðurinn er 43 ára og nefndur Tobias R. í þýskum fjölmiðlum. 

Peter Neumann, sem er sérfræðingur í málum tengdum hryðjuverkum við King's College í London, segir á Twitter að textar sem hafi fundist hafi flestir tengst skoðunum öfgamanna. 

Samkvæmt frétt ARD fannst lík móður hans á heimili mannsins en talið er að hann hafi skotið hana til bana. Nokkrir eru alvarlega sárir eftir árásirnar í gærkvöldi. Barirnir eru báðir vinsælir meðal Kúrda. 

Að sögn lögreglu framdi árásarmaðurinn sjálfsvíg en samkvæmt Bild er hann Þjóðverji og með byssuleyfi. Bæði skotfæri og byssutímarit fundust í bifreið hans. Hann lýsir í bréfi þar sem hann játar á sig árásirnar viðhorfum öfgamanna sem telja hvíta kynstofninn hafa yfirburði yfir aðra. 

mbl.is