Skrifað undir friðarsamkomulag í Afganistan

Sögulegt samkomulag undirritað. Fulltrúi bandrísku sendinefndarinnar Zalmay Khalilzad (t.v.) og …
Sögulegt samkomulag undirritað. Fulltrúi bandrísku sendinefndarinnar Zalmay Khalilzad (t.v.) og Mullah Abdul Ghani Baradar, einn æðsti leiðtogi talíbana, takast hér í hendur í Doha. AFP

Bandaríkin og talíbanar skrifuðu í dag undir samkomulag sem miðar að því að koma á friði í Afganistan eftir meira en 18 ára samfelld stríðsátök. Samkomulagið var undirritað í Doha í Katar og þykir sögulegt, en að því hefur verið unnið árum saman.

Talíbanar stjórna talsverðu landsvæði innan landamæra Afganistans og felur samkomulagið í sér að þeir skuldbinda sig til þess að leyfa hvorki al-Qaeda eða öðrum öfgahópum að starfa á yfirráðasvæðum þeirra.

Á móti hafa Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra í Atlantshafsbandalaginu skuldbundið sig til þess að láta sig hverfa með allt herlið sitt frá Afganistan innan fjórtán mánaða, standi talíbanar við gefin fyrirheit. Bandaríkjamenn munu einnig hafa milligöngu um friðarviðræður á milli talíbana og afgönsku ríkisstjórnarinnar.

Bandaríkjamenn réðust inn í Afganistan skömmu eftir að hryðjuverkamenn al-Qaeda réðust á Tvíburaturnana í New York, 11. september 2001. Síðan þá hafa yfir 2.400 bandarískir hermenn látist í átökum í landinu og um 12.000 bandarískir hermenn eru þar enn.

Brýnt að talíbanar standi við gefin loforð

Mike Pompeo utanríkisráðherra var viðstaddur undirritun samkomulagsins fyrir hönd Bandaríkjastjórnar og æðstu leiðtogar talíbana voru þar einnig. Pompeo ræddi við fjölmiðla eftir undirritunina og sagðist skora á talíbana að standa við þau loforð sem í dag hefðu verið gefin, um að slíta á tengsl við talíbana.

Mike Pompeo ræðir við fjölmiðla í Doha í dag.
Mike Pompeo ræðir við fjölmiðla í Doha í dag. AFP

Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir eftir undirritunina að Bandaríkin myndu ekki hika við að slíta þessu sögulega samkomulagi, færi svo að talíbanar stæðu ekki við orð sín. Þá myndi tækifæri þeirra til að ná sáttum við afgönsk stjórnvöld renna út í sandinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert