Allt að 25 milljónir gætu misst vinnuna

Atvinnuleysi mun aukast vegna kórónuveirunnar.
Atvinnuleysi mun aukast vegna kórónuveirunnar. AFP

Allt að 25 milljónir munu missa vinnuna og tekjur almennings munu dragast saman vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, að því er fram kemur í skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

„Þetta er ekki lengur faraldur sem hefur einungis áhrif á heilsu fólks heldur er um að ræða alþjóðlega krísu á vinnumarkaði,“ sagði Guy Ryder, forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Fram kemur að lönd heimsins geti búið sig undir mun meira atvinnuleysi vegna veirunnar.

Í skýrslunni kemur fram að besta mögulega niðurstaða atvinnumála sé sú að 5,3 milljónir manna myndu missa vinnuna í heimsfaraldrinum.

Mestu svartsýnisspár gera hins vegar ráð fyrir því að 24,7 milljónir manna missi vinnuna en bent er á að alls hafi 188 milljónir verið á skrá atvinnulausra í fyrra.

Til samanburðar hafi 22 milljónir manna misst vinnuna í tengslum við fjármálakreppuna haustið 2008.

Innkoma fólks muni dragast saman og þá muni þeim sem teljast fátækir á alþjóðlegum mælikvörðum fjölga hratt, jafnvel þeim sem séu á vinnumarkaði.

Stofnunin vill sjá tafarlausar aðgerðir til að verja vinnandi og örva hagkerfi á kólnandi tímum.

„Árið 2008 tóku ríki heims sig saman og komu í veg fyrir það versta vegna kreppunnar. Við þurfum svipaða leiðtogahæfileika núna,“ sagði Ryder.

mbl.is