Fangelsi og sekt fyrir brot á útgöngubanni

AFP

Þeir sem brjóta reglur sem gilda í tengslum við kórónuveirufaraldurinn í Ástralíu eiga yfir höfði sér harðar refsingar. Í Nýju Suður-Wales hafa yfirvöld ákveðið að þeir sem fara að heiman án skynsamlegrar afsökunar eigi yfir höfði sér allt að 11 þúsund dala sekt, sem svarar til 950 þúsund króna, sem og sex mánaða fangelsisvist. Sama refsing er fyrir þá sem koma saman fleiri en tveir. 

 Nú þegar hafa nokkrir tugir verið sektaðir fyrir brot á neyðarlögum, þar á meðal fólk sem hefur rofið sóttkví eða einangrun vegna veirunnar.

Japönsk yfirvöld mæla með því við þegna sína að þeir forðist ferðalög til 73 landa og sjálfstjórnarhéraða í heiminum. Eins er fólk beðið um að sleppa ferðalögum til annarra landa verði hjá þeim komist. 

Hætta er á að 11 milljónir íbúa austurhluta Asíu endi í fátækt vegna farsóttarinnar miðað við nýja hagspá Alþjóðabankans. Þrátt fyrir svartsýnar spár virðist sem kínverskar verksmiðjur hafi aukið framleiðslu sína í mars þrátt fyrir að hafa verið lokaðar í talsverðan tíma. 

Í Búrma var greint frá fyrsta dauðsfallinu af völdum COVID-19 í dag en það var 69 ára karlmaður sem sneri til baka til landsins um miðjan mars eftir að hafa verið í Ástralíu í krabbameinsmeðferð. 

Kínversk yfirvöld hafa ákveðið að fresta inngönguprófum í menntaskóla vegna kórónuveirunnar. Gríðarleg samkeppni er um að komast inn í framhaldsskóla þar í landi og þykja prófin afar erfið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert