„Við komumst í gegnum þetta

Elísabet Englandsdrottning ávarpaði þjóð sína í kvöld.
Elísabet Englandsdrottning ávarpaði þjóð sína í kvöld. AFP

Elísabet Englandsdrottning þakkaði heilbrigðisstarfsfólki í framvarðarsveitinni í baráttunni við kórónuveiruna sitt óeigingjarna starf í ávarpi til bresku þjóðarinnar í kvöld. Hún hvetur þjóðina til samstöðu og að hún komist saman í gegnum þetta.

Bretar fylgdust með þjóðhöfðingja sínum í kvöld.
Bretar fylgdust með þjóðhöfðingja sínum í kvöld. AFP

Afar sjaldgæft er að drottningin ávarpi þjóð sína beint í sjónvarpi en hún kom meðal annars inn á reynslu sína frá því á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar en hún flutti sitt fyrsta útvarpsávarp árið 1940 með aðstoð systur sinnar. „Við sem börn töluðum héðan frá Windsor til barna sem höfðu verið tekin af heimilum sínum og send í meira öryggi annars staðar,“ sagði Elísabet meðal annars í ávarpinu í kvöld.

AFP

Hún segir að Bretland standi frammi fyrir mörgum erfiðum áskorunum á tímum þar sem sumir syrgja og margir eigi í fjárhagserfiðleikum á sama tíma og gríðarlegar breytingar hafi orðið á daglegu lífi allra. 

Auk þess að þakka heilbrigðisstarfsfólki þakkaði hún þeim sem starfa við umönnun og þeim sem starfa við mikilvæg störf og hafa dag eftir dag farið til vinnu utan heimilis til þess að styðja aðra. 

AFP

„Ég er viss um að þjóðin tekur undir með mér um að það sem þið hafið gert er mikils metið og að hver klukkustund af ykkar erfiðu vinnu færir okkur nær því að snúa aftur til eðlilegri tíma. Ég vil líka þakka ykkur sem eruð heima og aðstoðið þannig við að verja þá viðkvæmu og forða mörgum fjölskyldum frá sársauka sem þeir sem hafa misst ástvini hafa upplifað. Saman getum við tekist á við þessa farsótt og ég fullvissa ykkur um að ef við verðum sameinuð áfram og einörð komumst við yfir þetta.“

Hér á BBC er hægt að hlusta á ávarp drottningarinnar 

Elísabet Englandsdrottning í kvöld.
Elísabet Englandsdrottning í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert