Thunberg styður UNICEF

Greta Thunberg styður baráttu UNICEF fyrir réttindum allra barna.
Greta Thunberg styður baráttu UNICEF fyrir réttindum allra barna. AFP

Greta Thunberg hefur ánafnað verðlaunafé sem hún fékk frá danskri stofnun, alls 700 þúsund danskar krónur, sem svarar til 14,7 milljóna íslenskra króna, til UNICEF í baráttunni við COVID-19 faraldurinn. 

Berlingske greinir frá þessu

„Líkt og loftslagsváin er kórónuveirufaraldurinn hættuástand þegar kemur að réttindum barna,“ sagði Thunberg en hún er 17 ára gömul. „Þetta hefur áhrif á öll börn, núna og til lengri tíma litið en viðkvæmir hópar verða fyrir mestum skaða,“ segir Thunberg enn fremur í yfirlýsingu sem UNICEF hefur sent frá sér. 

„Ég bið alla um að stíga fram og taka þátt í því með mér að styðja lífsnauðsynlegar aðgerðir UNICEF við að bjarga lífum barna, til varnar heilsu og tryggja menntun þeirra áfram.“

Danska stofnunin Human Act, sem stofnuð var af dansk-íranska auðkýfingnum Djaffar Shalchi, mun jafna framlag Thunberg þannig að alls renna 1,4 milljónir danskra króna til UNICEF. Stofnunin Human Act berst gegn fátækt í heiminum. 

UNICEF segir að gjöfin muni veita þeim stuðning í baráttunni við að styðja börn sem eiga við margvíslegan vanda að stríða á tímum kórónuveirunnar. Tíma þar sem skólar eru lokaðir og börnum gert að halda sig heima. Ekki síst á svæðum þar sem matarskortur ríkir, heilbrigðiskerfið er lélegt, ofbeldi viðvarandi og skortur á menntun.

Sænski aðgerðasinninn sagði í lok mars að hún hefði líklega smitast af kórónuveirunni á ferðalagi um Mið-Evrópu í mars en hún sýndi mörg einkenni veirunnar. 

DR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert