Lést af völdum veirunnar í landamærastöð

Carlos Escobar-Mejia, 57 ára karlmaður frá El Salvador, er sá …
Carlos Escobar-Mejia, 57 ára karlmaður frá El Salvador, er sá fyrsti sem lætur lífið af völdum COVID-19 í landamærastöð í Bandaríkjunum. AFP

57 ára karlmaður frá El Salvador lést af völdum COVID-19 í landamærastöð í San Diego í Bandaríkjunum í gær. Þetta er fyrsta dauðsfallið af völdum veirunnar í bandarískri landamærastöð. 

Carlos Escobar-Mejia var haldið í Otay Mesa-landamærastöðinni og gekkst undir læknishendur vegna veirunnar 24. apríl en lést í gær, að því er segir í tilkynningu Inn­flytj­enda­eft­ir­lits Banda­ríkj­anna (ICE). 132 tilfelli kórónuveirunnar hafa verið staðfest í landamærastöðunni, sem er einkarekin, og eru smitin fleiri en í nokkurri annarri. Alls hefur komið upp smit í 41 landamærastöðum í Bandaríkjunum. 

„Fólki sem er haldið þar talar um dauðagildru sökum skorts á fyrirbyggjandi aðgerðum starfsfólks,“ segir m.a. í yfirlýsingu mannúðarsamtakanna American Civil Liberties Union (ACLU). „Þetta er hræðilegur harmleikur, og því miður fyrirsjáanlegt,“ segir Andrea Flores, yfirmaður innflytjendamála hjá ACLU. 

Dómari úrskurðaði í síðustu viku að fólk sem dvelur á stöðunni og er með undirliggjandi sjúkdóma eða í áhættuhóp verði leyft að yfirgefa landamærastöðina en á mánudag hafði aðeins einum af þrjátíu sem uppfylla skilyrðin verið sleppt úr haldi.

Hvergi hafa fleiri smitast af veirunni í heiminum en í Bandaríkjunum en alls hafa 1.254.740 tilfelli kórónuveirunnar verið staðfest þar í landi og 75.543 hafa látið lífið. mbl.is