Játningar böðuls

Gabriel de Jesus Rincón.
Gabriel de Jesus Rincón. AFP

Aftökur án dóms og laga voru hið hefðbundna í Kólumbíu á tímum vígaferla milli stjórnvalda og vinstri sinnaðra skæruliðasamtaka að sögn fyrrverandi ofursta í kólumbíska hernum. „Ég drap þá ekki sjálfur en ég lagði mitt af mörkum til að það væri gert,“ segir Gabriel de Jesus Rincón og vísar þar til morða sem sérsveitir hersins frömdu.

Þegar upplýst var um aftökurnar sem framdar voru af hermönnum í kólumbíska hernum vakti það mikinn óhug meðal landsmanna sem bjuggu við vopnuð átök um rúmlega fimm áratuga skeið. Átök sem kostuðu milljónir lífið en alls létust, hurfu eða urðu að flýja heimili sín, átta milljónir íbúa Kólumbíu á þessu tímabili. 

Rincón, sem er á sextugsaldri, varð að láta af störfum eftir 22 ára starf innan hersins eftir að hann var dæmdur fyrir morð og að hafa tekið þátt í þvinguðum mannshvörfum í starfi sínu.

Á árunum 2006-2008 stýrði Rincón 15. herdeildinni í austurhluta Kólumbíu. Árásir herdeildarinnar voru svo harkalegar að líkhúsið í litla þorpinu Ocana yfirfylltist í september 2008. Af ótta við smithættu ákváðu bæjarstjórinn og presturinn í Ocana að flytja tugi líka í fjöldagröf en meðal þeirra voru almennir borgarar sem höfðu horfið nokkrum vikum fyrr. 

Vissi hverjir voru í fjöldagröfinni

AFP

Rincón viðurkennir í viðtali við AFP-fréttastofuna að hann hafi vitað hver fórnarlömbin voru áður en fjöldagröfin var opnuð; ungmenni úr fátækrahverfi Bogota, Soacha-hverfinu, sem er í 740 km fjarlægð frá þeim stað þar sem fjöldagröfin var grafin. Að hann hafi séð til þess að það yrði látið líta út sem ungmennin hefðu látist í átökum við herinn. Þau væru skæruliðar.

Þetta er í fyrsta skipti sem Rincón viðurkennir hlut sinn í óhæfuverkunum sem framin voru í Kólumbíu í fjölmiðlum. Sérstakur dómstóll, Jurisdicción Especial para la Paz (JEP), var skipaður í kjölfarið á sögulegu friðarsamkomulagi milli stjórnvalda og skæruliðasamtakanna FARC (Vopnaðar byltingarsveitir Kólumbíu) sem var undirritað í nóvember 2016.

„Ég tilkynnti þetta ekki og ég leyfði hersveitinni sem var staðsett þar, á vígvellinum, að gera þetta,“ segir hann. 

Hermennirnir héldu sjálfir utan um hversu marga skæruliða og eiturlyfjasala eða eiturlyfjaneytendur þeir drápu en í valdatíð hægri mannsins Álvaro Uribe, sem var forseti Kólumbíu 2002-2010, fjölgaði slíkum drápum mjög vegna þess að hermönnum var umbunað með verðlaunum og stöðuhækkunum fyrir að fækka í þessum hópi. Eitthvað svipað og hefur viðgengist á Filippseyjum í valdatíð Rodrigo Duterte.

Uribe beitti stjórnarhernum af krafti gegn skæruliðahreyfingunni en liðsmenn FARC myrtu á sínum tíma föður Uribe.

Liðsmenn FARC-samtakanna hafa einnig mörg voðaverk á samviskunni. Talið er að allt að 280.000 manns hafi látist í baráttu þeirra, auk þess sem líf fjölmargra annarra var eyðilagt með mannránum, gripdeildum, og nauðgunum, allt í nafni marxismans.

Næsta dag voru þeir dánir

Rincónvar dæmdur árið 2017 í 46 ára fangelsi fyrir morð á fimm einstaklingum á aldrinum 20-25 ára. Andlát þeirra höfðu verið skráð sem dauðföll í bardaga. Ungmenni sem voru voru tæld af tveimur mönnum sem ekki voru í hernum. Var þeim heitið auðfengnu fé færu þau með rútu til Ocana en þegar þangað var komið voru þau tekin af lífi af hermönnunum. 

„Ég þurfti aldrei að útskýra neitt fyrir hermönnunum. Ég sagði þeim bara: þið eruð að fara í hernaðaraðgerð. Við komum með fólk til ykkar og þið vitið hvað þið þurfið að gera,“ segir Rincón. 

Victor Gomez var 23 ára þegar hann fór ásamt tveimur öðrum í ferðalagið til Ocana. „Þeir fylltu þá og fóru síðan með þá á eftirlíkingu af eftirlitsstöð hersins,“ segir móðir Victors,  Carmenza Gomez. „Næsta dag voru þeir dánir.“

Allir þrír voru sagðir vera liðsmenn glæpagengja. „Victor var með kúlu í enninu, náðarhögg,“ segir hún en vegna líflátshótana nýtur hún vitnaverndar. Þúsundir voru drepnar með köldu blóði. Almennir borgarar sem var látið sem hefðu fallið í átökum.

Embætti ríkissaksóknara hefur borið kennsl á 2.248 þessara einstaklinga eða 60% þeirra sem voru drepnir á tímabilinu 2006-2008 undir stjórn Uribe. Hann er nú öldungadeildarþingmaður og neitar allri ábyrgð á morðunum.

Frétt France24

„Herforingjarnir voru hvattir til þess að ná árangri þrátt fyrir að það þýddi að það þurfti að fremja þessar aftökur. Að breyta aftökum í löglegar athafnir,“ segir Rincón. 

AFP

Að sögn Jose Miguel Vivanco hjá Human Rights Watch hurfu málaskrár í réttarkerfi hersins en Sameinuðu þjóðirnar áætla að aftökurnar hafi verið um fimm þúsund talsins. „Þetta voru ekki verk nokkurra skemmdra epla heldur skipulagðir og víðtækir glæpir,“ segir Vivanco.

Rannsókn er hafin á hlut 29 herforingja að þessum morðum. Rincón var eitt sinn spurður af Mario Montoya, sem var yfirmaður kólumbíska hersins en er sendiherra Kólumbíu í Dómíníska lýðveldinu í dag, hvert hans framlag yrði fyrir kólumbíska herinn. Benti Montoya honum á að það gæti verið gott að setja eitthvað af þeim almennu borgurum sem þeir tóku af lífi og klæða þá í búninga uppreisnarmanna. Þannig yrðu þeir framlag hans í baráttunni gegn skæruliðum. 

Að sögn Rincón fékk hann aldrei fyrirskipun um að drepa frá yfirmönnum sínum í hernum en að haldinn hafi verið topp tíu listi yfir þær hersveitir sem náðu að drepa sem flesta.

Friðarsamkomulagið gerði meðal annars ráð fyrir því að réttað yrði yfir FARC-liðum fyrir alvarlegustu glæpina, en jafnframt að refsing þeirra verði milduð, gangist þeir við brotum sínum. Munu skæruliðarnir jafnvel losna við að afplána dóma sína í fangelsi ef þeir játa, gegn því að þeir sinni ýmiss konar þegnskylduvinnu.

Rincón, sem hefur verið laus gegn tryggingu frá árinu 2018, bíður réttarhalda dómstólsins sem rannsakar voðaverk sem framin voru á þessum tíma, JEP, en dómstóllinn var settur á laggirnar í mars 2017. 

JAIME SALDARRIAGA

Bæði hermenn úr kólumbíska hernum og liðsmenn FARC hafa verið ákærðir fyrir glæpi af hálfu JEP. Rincon hefur þegar verið dæmdur í 46 ára fangelsi fyrir almennum dómstól en til þess að eiga möguleika á dómurinn verði styttur þarf Rincón að játa brot sín og segja sannleikann um það sem gerðist innan hersins. Hann þarf jafnframt að biðja fórnarlömb sín og fjölskyldur þeirra afsökunar og greiða skaðabætur. Reynt var að ráða Rincón af dögum í nóvember og síðan þá hefur hann verið undir lögregluvernd ásamt 19 öðrum fyrrverandi yfirmönnum í hernum sem einnig bíða réttarhalda hjá JEP. 

Lögmanni hans hefur einnig verið hótað en að sögn Giovanni Alvarez, sem stýrir rannsóknum JEP, setja þeir sig í hættu sem ákveða að segja sannleikan eftir meira en 50 ár vopnaðra átaka. 

Rincón mun mæta fjölskyldum fórnarlambanna og útskýra þann þrýsting sem þeir voru beittir. Hvernig hann varð að böðli sem eyðilagði líf svo margra. „Þetta verður erfitt. Að mæta fólki augliti til auglitis, fórnarlömb og árásarmaður,“ segir Rincón í viðtali við AFP-fréttastofuna nýverið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert