Fordæmir áform um launmorð

Iván Duque, forseti Kolumbíu.
Iván Duque, forseti Kolumbíu. AFP

Yfirvöld í Kólumbíu hafa fordæmt meint áform um að ráða af dögum forseta landsins, Iván Duque, og segja þrjá Venesúelamenn hafa verið handtekna fyrir ráðabruggið.

Eftir því sem fram kemur á vef BBC sagði utanríkisráðherra Kólumbíu, Carlos Holmes Trujillo, að fyrir lægju trúanlegar fyrirætlanir um að ráða Duque af dögum. Þá sagði hann að Venesúelamennirnir þrír sem hafa verið handteknir, hafi haft undir höndum „stríðsvopn“.

„Rannsóknir leyniþjónustunnar á mögulegum árásum hafa verið í gangi í nokkra mánuði,“ sagði Trujillo og bætti við að handtaka mannanna þriggja „eykur enn frekar áhyggjur okkar.“

Spenna á milli Venesúela og Kólumbíu hefur farið stigmagnandi á síðustu mánuðum. Milljónir hafa flúið efnahagskreppu og pólitískan óstöðugleika í Venesúela á undanförnum árum og hefur stór hluti þessa hóps farið yfir til Kólumbíu.

Duque var kjörinn forseti í lok sumars og hét því að einangra landið. Hefur hann síðan þá hvatt til þess að forseti Venesúela, Nicolás Maduro, yrði ekki viðurkenndur sem forseti landsins eftir umdeilda kosningu hans í maí og sagt hann vera einræðisherra.

Maduro sjálfur hefur haldið því fram að kólumbísk og bandarísk yfirvöld hafi ráðgert að ráða sig af dögum og koma ríkisstjórn sinni frá völdum. Þá sagði hann John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, hafa haft persónulega aðkomu að umræddri ráðagerð.

Nicolás Maduro, forseti Venesúela.
Nicolás Maduro, forseti Venesúela. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert