Milljónir leita skjóls frá Amphan

Gervitunglamynd sem var tekin í gær sem sýnir fellibylinn Amphan, …
Gervitunglamynd sem var tekin í gær sem sýnir fellibylinn Amphan, en hann myndaðist við Bengalflóa og tekur nú stefnuna á Indland og Bangladess. AFP

Milljónum íbúa í Suður-Asíu hefur verið komið í skjól því von er á einum öflugasta fellibyl sem hefur farið yfir svæðið árum saman. Fellibylurinn Amphan stefnir nú á Indland og Bangladess, en rýmingaraðgerðir stjórnvalda hafa þó reynst þrautinni þyngri út af gildandi sóttvarnarráðstöfunum vegna kórónuveirunnar. 

Reiknað er með að vindhraði Amphan verði um það bil 50 metrar á sekúndu þegar hann fer yfir austurhluta Indlands og Bangladess síðdegis á morgun og annað kvöld. Þá er búist við mikilli ölduhæð við strendur landanna. 

Búist er við miklum öldugangi og flóðum þar sem Amphan …
Búist er við miklum öldugangi og flóðum þar sem Amphan fer yfir. AFP

Yfirvöld í Bangladess óttast að styrkur Amphan verði svipaður fellibylnum Sidr sem olli gríðarlegri eyðileggingu árið 2007. Þá létust yfir 3.500 manns í óveðrinu, aðallega vegna mikilla flóða sem fylgdu í kjölfar stormsins. 

Talsmaður yfirvalda segir að þegar sé búið að rýma svæði við strandlengjuna og koma mörg þúsund manns þar í öruggt skjól. Markmiðið sé að flytja um 2,2 milljónir íbúa og koma í veg fyrir dauðsföll. 

Til að tryggja að fólk haldi tveggja metra reglunni og gildandi sóttvarnaráðstöfunum sé haldið til haga er búið að fjölga þeim stöðum þar sem íbúar geta leitað skjóls. En m.a. á að nýta skólabyggingar og þá er það skylda fyrir fólk að vera með grímur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert