Hvers vegna?

Sérstakur saksóknari, Krister Peters­son, sem hefur stýrt rannsókn á morðinu á for­sæt­is­ráðherra Svíþjóðar, Olof Palme, segir að Stig Engström, sem hefur gengið undir heitinu Skandia-maðurinn í fjölmiðlum hafi myrt Palme en hvers vegna? 

Petersson kynnti niðurstöðu rannsóknar hans og fimm manna teymis innan rannsóknarlögreglunnar sem hefur rannsakað málið frá því árið 2017 á blaðamannafundi í morgun. Að hans sögn var það Engström sem drap Palme og möguleg ástæða er sögð ólíkar stjórnmálaskoðanir.

Palme var formaður Jafnaðarmannaflokksins og umdeildur innanlands og utan. Til að mynda voru stjórnvöld í Bandaríkjunum lítt hrifin af honum þar sem Palme lá ekki á andstöðu sinni við hlut Bandaríkjanna í Víetnamstríðinu. Eins studdi hann ríkisstjórnir kommúnista á Kúbu og í Níkaragva. Á heimalóðum lenti honum ítrekað saman við leiðtoga viðskiptalífsins og hersins og talaði gegn kjarnorku. 

Saksóknarinn Krister Petersson.
Saksóknarinn Krister Petersson. AFP

Petersson sagði á fundinum í morgun að Engström hafi verið á öndverðum meiði við Palme og stjórnmálaskoðanir hans. Engström glímdi við ýmis vandamál, svo sem fjárhagslega erfiðleika og lifði langt umfram efni. Eins átti hann við áfengisvandamál að stríða. Engström hafi haft aðgang að vopnum og eins fengið þjálfun í að fara með vopn. 

Byssan sem Palme var myrtur með hefur aldrei fundist þrátt fyrir að tæplega 800 byssur hafi verið rannsakaðar í tengslum við málið síðustu 34 árin, eða frá morðinu 28. fe­brú­ar 1986. „Við erum ekki með neinar fullgildar sönnur á því hvaða byssu Engström á að hafa skotið Palme með. En miðað við það sem gerðist þá hlýtur hann að hafa verið vopnaður þetta kvöld,“ segir Petersson. 

Stig Engström - Skandia-maðurinn.
Stig Engström - Skandia-maðurinn. AFP

Sænska lögreglan hefur ítrekað verið sökuð um handvömm við rannsókn málsins. Fyrst fyrir að hafa ekki girt vettvanginn af þannig að hvers sem er gat gengið þar um og eyðilegt tæknirannsóknina. 

Stig Engström var grafískur hönnuður hjá Skandia-tryggingafélaginu og starfaði í höfuðstöðvum fyrirtækisins á þessum tíma. Palme var skotinn til bana við fjölfarna götu og yfir tugur vitna sá mann skjóta af byssu áður en hann flúði af vettvangi og Palme blæddi út. 

Sonur Palme, Marten, sagði í viðtali í morgun að hann teldi að saksóknari hefði komist að réttri niðurstöðu og það væri réttmæt ákvörðun að loka málinu nú. Lisbet, eiginkona Palme, benti á annan mann sem mögulegan morðingja, Christer Pettersson, og var hann dæmdur í undirrétti fyrir morðið en sýknaður af áfrýjunardómstól síðar. Pettersson lést árið 2004 og Lisbet lést árið 2018.

AFP

Engström er einn þeirra þúsunda sem var yfirheyrður í kjölfar morðsins en þar sem hann framdi sjálfsvíg árið 2000 verður hann aldrei sóttur til saka fyrir morðið. Helsta skýringin á því hvers vegna hann er nú lýstur morðingi er sú að skýringar Engström yfir yfirheyrslur hafi ekki staðist skoðun.

„Hvernig hann hegðaði sér teljum við að sé eins og morðingi hefði hagað sér,“ sagði Petersson. Þrátt fyrir að hafa verið yfirheyrður var Engström aldrei miðpunktur rannsóknarinnar en þegar farið var að skoða bakgrunns upplýsingar um hann, til að mynda vopnaburð hans, herþjálfun og að hann var í skotfélagi beindust sjónir þeirra meira að honum. Engström fór heldur ekki leynt með andúð sína á Palme og skoðunum hans. 

Þrátt fyrir þetta segir Petersson að rannsóknarteymið hafi samt sem áður ekki neina niðurneglda ástæðu fyrir því hvers Engström á að hafa gengið að Palme og skotið hann í bakið. 

Christer Pettersson.
Christer Pettersson. AFP

En það sem vitað er að Engström var að vinna fram eftir þetta kvöld og hann var á vettvangi morðsins. Hann var yfirheyrður nokkrum sinnum en lögreglan útilokaði hann fljótlega sem mögulegan morðingja. 

Engström laug að lögreglu varðandi atburðarásina eftir morðið og hann hafi jafnvel reynt endurlífgun án árangurs. Sá sem fyrst nefndi Engström sem mögulegan morðingja er rithöfundurinn Thomas Pettersson og í kjölfar þess fór lögreglan að rannsaka Engström betur. Ekkja Engström sagði í viðtali við Expressen árið 2018 að hún hafi verið yfirheyrð vegna málsins árið 2017 og að hún hafi tjáð þeim að það væri útilokað að hann hefði framið morðið.

„Hann var of mikil gunga til þess. Hann hefði ekki getað gert flugu mein,“ sagði hún.

AFP

Saksóknari segir að allt bendi til þess að Engström hafi verið einn að verki en ekki væri hægt að útiloka að um víðtækara samsæri hafi verið um að ræða. Ekkert slíkt hafi komið fram við rannsóknina en ekki sé hægt að útiloka það.

Að hans sögn sagði Engström við yfirheyrslur að hann hefði komið á vettvang skömmu eftir að Palme var skotinn en yfirgefið staðinn rétt áður en lögregla kom. Petersson segir að Engström hafi tjáð lögreglu að hann hafi snúið Palme við en ekkert vitni hefur bent á Engström varðandi fólk sem var á vettvangi glæpsins. 

Hver var Engström?

Engström var fæddur á Indlandi en foreldrar hans voru sænskir. Fjölskyldan flutti aftur til Svíþjóðar þegar hann var 12 ára gamall. Eftir að hafa fallið í menntaskóla fór hann í herinn og vann sig upp í stöðu liðþjálfa. Síðan lærði hann grafíska hönnun og starfaði fyrir sænska ríkissjónvarpið áður en hann flutti sig yfir til Skandia þar sem hann starfaði við auglýsingaráðgjöf. 

Hann lýsti sér sjálfur sem afar hlédrægum en um leið sjálfsöruggum og í viðtali við Svenska Dagbladet árið 1982 minntist hann þess að hafa leikið sér með tindáta og önnur leikföng tengd hermennsku sem barn. Á níunda áratugnum gekk Engström til liðs við Moderaterna hægri flokkinn og fylgdist vel með stjórnmálum. Hann var með hreina sakarskrá er hann lést árið 2000 og skildi ekkert eftir sem bendir á að hann hafi verið maðurinn á bak við morðið á Palme. 

Rannsóknin á morðinu á Palme er bæði sú kostnaðarsamasta og um leið sú lengsta í sögu Svíþjóðar og ýmsar kenningar komið upp á yfirborðið. 

SVT

Aftonbladet

BBC

The Local

Hans Holmér, sem stýri rannsókninni í upphafi.
Hans Holmér, sem stýri rannsókninni í upphafi. AFP

Orri Páll Ormarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu skrifaði ítarlega grein um morðið þegar aldarfjórðungur var liðinn frá því, í lok febrúar 2011. „Það var föstudagskvöld og Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, var að koma úr í Grand-kvikmyndahúsinu í Stokkhólmi ásamt eiginkonu sinni, Lisbet, syni og tengdadóttur, þar sem þau höfðu séð nýjustu kvikmynd sænska leikstjórans Suzanne Osten, Mozart-bræðurna. Eftir sýninguna kvöddust pörin með virktum og Palme-hjónin röltu í rólegheitunum niður Sveavägen í átt að neðanjarðarlestarstöðinni á Rådmansgötu, fyrir þá sem þekkja til staðhátta í Stokkhólmi. Engir lífverðir voru með í för enda var Palme frægur fyrir óvarkárni í þeim efnum – þrátt fyrir stöðu sína vildi hann lifa eins eðlilegu lífi og unnt var. Fyrir það var hann oft gagnrýndur.

Kvikmyndahúsið þaðan sem Palme-hjónin voru að koma.
Kvikmyndahúsið þaðan sem Palme-hjónin voru að koma. AFP

Þegar hjónin áttu aðeins örfá skref ógengin að lestarstöðinni vatt maður sér að þeim og skaut þau bæði af stuttu færi. Palme lá eftir í blóði sínu en Lisbet særðist aðeins lítillega. Ódæðismaðurinn hljóp að svo búnu niður Tunnelgötu og hvarf fljótt sjónum. Leigubílstjóri sem varð vitni að atburðinum hafði umsvifalaust samband við lögreglu og tvær ungar stúlkur sem voru á næstu grösum reyndu að koma hjónunum til hjálpar. Þau voru flutt á sjúkrahús, þar sem Palme var úrskurðaður látinn.

Sænska þjóðin var harmi slegin yfir morðinu. Svona lagað átti ekki að geta gerst í Svíþjóð,“ segir í umfjöllun Orra Páls.

Ýmsar tilgátur

Fljótlega var kunnur öfgamaður, Victor Gunnarsson, tekinn höndum en engar sannanir lágu fyrir gegn honum. Gunnarsson var því sleppt. Hann flutti síðar til Bandaríkjanna, þar sem hann var myrtur.

Hans Holmér, lögreglustjóri í Stokkhólmi, lagði áherslu á að fylgja eftir ábendingu um að samtök Kúrda í Svíþjóð, PKK, hefðu verið á bak við morðið á Palme. Ekki var hægt að færa sönnur á það og Holmér hrökklaðist á endanum frá rannsókn málsins.

AFP

Í desember 1988, tæpum þremur árum eftir dauða Palmes, var Christer Pettersson, góðkunningi lögreglunnar, handtekinn grunaður um glæpinn, eftir að Lisbet Palme hafði bent á hann í sakbendingu. Hann var dæmdur fyrir morðið í undirrétti en eftir áfrýjun sýknaði hæstiréttur hann. Rök dómsins voru einkum þríþætt. Í fyrsta lagi var morðvopnið ófundið; í annan stað hafði hann enga augljósa ástæðu til að fremja glæpinn og í þriðja lagi þótti réttinum vitnisburður Palme ekki nógu áreiðanlegur.

Petterson lá áfram undir grun en ekki var hægt að höfða annað mál á hendur honum nema nýjar upplýsingar kæmu fram. Frekari upplýsingar koma heldur ekki frá honum úr þessu því Petterson lést haustið 2004 af völdum heilablæðingar eftir slys. Fjöldi vitna hefur borið að Petterson hafi gengist við morðinu.

AFP

Palme lét mikið til sín taka á alþjóðavettvangi. Hann hafði m.a. skömm á aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku og barðist fyrir afnámi hennar. Tíu árum eftir morðið bar Eugene de Kock, fyrrverandi lögreglumaður, fyrir rétti í Pretoríu að Palme hefði verið myrtur af þessum sökum. Hann nafngreindi meira að segja manninn sem hann taldi hafa framið verknaðinn. Sænska lögreglan sendi í kjölfarið menn til Suður-Afríku en þeir fundu ekkert sem renndi stoðum undir orð de Kocks.

Mörgum fleiri kenningum hefur verið kastað fram gegnum árin, svo sem að Baader-Meinhof-hópurinn í Þýskalandi og fasisti frá Chile hafi banað Palme, en ekkert sannast í þeim efnum.

Alls hafa 134 einstaklingar játað fyrir lögreglu að hafa myrt Palme. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert