Hafnar beiðni Trump um stöðvun útgáfu Bolton

John Bolton og Donald Trump.
John Bolton og Donald Trump. AFP

Alríkisdómari í Bandaríkjunum hefur hafnað beiðni Donald Trump Bandaríkjaforseta um að útgáfa væntanlegrar bókar John Bolton, fyrrum þjóðaröryggisráðgjafa forsetans, verði stöðvuð. 

Ríkisstjórn Trump fór fram á það í vikunni að Bolton yrði fyrirskipað að stöðva útgáfu bókarinnar, sem fjallar um starfstíma Bolton í Hvíta húsinu. Rökin sem gefin voru fyrir fyrirskipuninni í málsókn á hendur Bolton eru þau að hann hafi brotið gegn samningi og að Bolton taki áhættu á að afhjúpa leynilegar upplýsingar með útgáfunni. 

Royce Lamberth, dómari í umdæmi Washington, sagði í úrskurði sínum að Bolton spilaði með þjóðaröryggi og hætti á að skaða þjóð sína. Hann sagði þó að ríkisstjórninni hefði mistekist að sýna fram á að stöðvun útgáfunnar kæmi í veg fyrir óafturkræfan skaða. 

Bókin hefur nú þegar verið prentuð í mörg hundruð þúsund eintökum og á að fara í sölu á þriðjudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert