Meðalaldur nýsmitaðra í Noregi snarlækkar

Sólin sleikt í Ósló. Einmuna veðurblíða og 30 stiga hiti …
Sólin sleikt í Ósló. Einmuna veðurblíða og 30 stiga hiti er nú í norsku höfuðborginni og víðar um Noreg og reyndar Evrópu alla. Kórónusmitum fjölgar áberandi í aldurshópnum 20 til 29 ára og er nú svo komið að meðalaldur nýsmitaðra hefur færst úr 51 ári í 32. AFP

Mun fleiri Norðmenn í aldurshópnum 20 – 29 ára greinast nú smitaðir af kórónuveiru en í árdaga faraldursins. Þetta sýnir ný tölfræði norsku lýðheilsustofnunarinnar, Folkehelseinstituttet, svo ekki verður um villst.

Það sem af er júnímánuði hafa 103 á nefndu aldursskeiði greinst með veirusmit og hefur meðalaldur nýsmitaðra lækkað úr 51 ári í mars í 32 ár í júnímánuði. „Við sjáum nú mun fleiri smit meðal yngra fólks,“ segir Helena Nimemi Eide, sóttvarnalæknir hjá lýðheilsustofnun, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Yngra fólk fær vægari einkenni

Nýju tölurnar koma Espen Nakstad, lækni, lögfræðingi, rithöfundi og aðstoðarforstjóra Heilbrigðisstofnunar Noregs, Helsedirektoratet, lítið á óvart. „Yngra fólk fær vægari einkenni og umgengst þá ef til vill fleira fólk án þess að vita að það ber veiruna og getur smitað aðra,“ segir Nakstad.

Fréttamaður NRK spyr hvort aukin smittíðni meðal yngri kynslóðarinnar gæti tengst sumri og sól, glaumi og gleðskap.

„Það er ekkert víst að nýju tölurnar hafi eitthvað með það að gera að fólk er að kíkja meira í bæinn. Áhættan er þó mun meiri núna þegar fólk er meira úti og kemur meira saman um kvöld og helgar,“ svarar Nakstad og leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að fólk gæti að nánd og haldi fjarlægð.

„Að opna barina á nýjan leik var eins konar traustsyfirlýsing til veitingamanna og ekki síður almennings. Flestir veitingastaðir gæta vel að sóttvarnareglum, en ekki allir,“ segir Victoria Maria Evensen, borgarfulltrúi Verkamannaflokksins, við NRK, en Evensen ræddi einmitt þá nýtilkomið áfengissölubann í Ósló við mbl.is í marslok.

Segir Evensen Óslóarborg hvergi nærri refsiglaða. „Við höfum engan áhuga á að refsa heilli atvinnugrein fyrir að einhverjir standi sig ekki í stykkinu. Hins vegar munum við bregðast við augljósum brotum af fullkominni hörku og loka hjá þeim aðilum,“ segir borgarfulltrúinn.

Áðurnefnd Eide hjá Lýðheilsustofnun segir mikilvægt að yngra fólk geri sér ljóst að verði það vart einkenna á borð við hósta eða almenna vanlíðan verði það að halda sig heima. „Og láta svo prófa sig,“ segir Eide.

NRK

Folkehelseinstituttet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert