Sex handteknir vegna „hollenskra pyndingarklefa“

Búið var að koma tannlækningastól fyrir í einu rýminu.
Búið var að koma tannlækningastól fyrir í einu rýminu. Skjáskot úr myndbandi hollensku lögreglunnar

Sex karlmenn hafa verið handteknir af lögregluyfirvöldum í Hollandi eftir að lögreglan komst á snoðir um að sjö gámum hefði verið breytt í klefa til að pynda fólk. Upp komst um málið eftir að lögreglan í Frakklandi komst yfir skilaboð sem send höfðu verið með dulkóðunarbúnaði.

Gámarnir fundust í Wouwse Plantage, suður af Rotterdam í Hollandi. Hollenska lögreglan sagði að gámarnir hefðu fundist áður en þeir voru teknir í notkun og að fyrirhuguð fórnarlömb væru nú í felum undir verndarvæng lögreglunnar.

Inni í gámunum mátti finna tannlækningastól með ólum og handjárnum. BBC greinir frá.

Angi af EncroChat-málinu

Mennirnir voru handteknir 22. júní eftir að frönsk og hollensk lögregluyfirvöld náðu að hakka EncroChat-símkerfið sem notað hefur verið til að skipuleggja glæpi af skipulögðum glæpasamtökum. Kerfið dulkóðaði skilaboð sem aðilar sendu á milli sín.

Þegar kerfið var hakkað komst lögreglan í milljónir skilaboða, þar á meðal skilaboð frá fertugum manni frá Haag, sem var handtekinn í tengslum við gámamálið.

Eftir að lögreglan fann gámana var svæðið sem þeir voru geymdir á sett undir eftirlit og tóku lögreglumenn eftir því að margir menn komu að uppsetningu og breytingum á þeim á hverjum degi.

Fundu skotheld vesti, skurðhnífa og lögreglufatnað

Lögreglan birti myndband af því þegar þeir fóru inn í gámana og er óhætt að segja að þeir séu óhugnanlegir. Handjárn höfðu verið fest við gólf og loft auk þess sem búið var að hljóðeinangra rýmið. Myndbandið má annars sjá á vef TIME.

Í einum gáminum fundu þeir einkennisfatnað lögreglu, skotheld vesti og í öðrum fundu þeir klippur, skurðhnífa og lambhúshettur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert