Einn af hverjum 100 smitaður

AFP

Á meðan kórónuveiran geisaði sem harðast í einhverjum ríkjum Bandaríkjanna var lítið um smit í Flórída og nýttu margir sér það með því að fara þangað í sjálfskipaða einangrun. Nú hefur staðan heldur betur breyst í Flórída og er tæplega einn af hverjum 100 íbúum sólarríkisins smitaður af COVID-19. Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun Washington Post um stöðu mála í Flórída í dag. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lýsti Flórída sem fyrirmyndarríki þegar kæmi að því að takast á við veiruna. Flokksþing re­públi­kana sem halda átti í Char­lotte í N-Karólínu í sumar var flutt til Jacksonville og úrslit NBA áttu að fara fram í Disney-íþróttahöllinni skammt frá Orlando. Strendur ríkisins fylltust af fólki og flestir sáu fram á náðuga daga en ýmislegt hefur breyst síðustu vikur. 

AFP

Flestar gjörgæsludeildir sjúkrahúsa í Flórída eru yfirfullar af fárveiku fólki og óttast íbúar að ástandið eigi eftir að versna enn frekar. Alls hafa yfir þrjár milljónir smitast af COVID-19 í Bandaríkjunum. Síðasta sólarhringinn voru yfir 10 þúsund ný smit staðfest í Kaliforníu og eins í Texas. 

Ríkisstjórinn í Flórída, Ron DeSantis, gerir lítið úr fjölgun smita og segir að ástæðan sé væntanlega sú að farið er að fjölga sýnatökum. Eins séu margir ungir smitaðir þannig að ólíklegt sé að þeir veikist illa. 

Ríkisstjórinn í Flórída, Ron DeSantis.
Ríkisstjórinn í Flórída, Ron DeSantis. AFP

Samkvæmt tölum Washington Post voru smitin alls 213.794 talsins í Flórída í gær. Undanfarnar þrjár vikur hafa tæplega níu þúsund ný smit verið staðfest á degi hverjum. 52 gjörgæsludeildir sjúkrahúsa, um þriðjungur allra í ríkinu, eru yfirfullar og geta ekki tekið við fleirum og á 17 sjúkrahúsum til viðbótar er nýtingin 100%. Álagið á hjúkrunarfræðinga er gríðarlegt og vinna þeir allt að 18 tíma á dag vegna skorts á starfsfólki og sinna þeir sjúklingum á opnum svæðum sem yfirleitt eru notuð þegar um léttvæg veikindi er að ræða. 

AFP

Donald Trump er ekki sammála helsta sérfræðing Bandaríkjanna í smitsjúkdómum, Anthony Fauci, um ástand mála í Bandaríkjunum. Fauci segir ástandið alls ekki gott og fyrsta bylgja COVID-19 sé enn í gangi. 

„Ég tel að við séum í góðri stöðu,“ sagði Trump í viðtali í fréttaþættinum „Full Court Press". „Ég er ósammála honum,“ bætti Trump við. 

Að sögn Trump sagði Fauci í fyrstu að fólk þyrfti ekki að nota andlitsgrímur en nú segi hann að það eigi að nota grímur. Margar ráðlegginga Fauci hafi ekki verið til góðs. Yfir 130.000 manns hafa dáið úr COVID-19 í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert