Árásarmaðurinn þekkti konurnar

Frá Sarpsborg í Noregi í nótt.
Frá Sarpsborg í Noregi í nótt. AFP

Maður sem réðst vopnaður hnífi á þrjár konur í norsku borginni Sarpsborg í gærkvöldi þekkti tvær kvennanna. Ein kvennanna lést og önnur er þungt haldin. Ekki er vitað hvort hann tengist konunni sem lést. Konan sem lést er um fimmtugt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá norsku lögreglunni.

Hringt var í lögregluna um klukkan 23:30 í gærkvöldi og henni tjáð að kona hafi verið stungin með hnífi við umferðarmiðstöð í Sarpsborg, sem er um 70 km suður af Ósló. Konan sat þar í bíl og var að bíða eftir ættmenni. Nokkrum mínútum síðar var tilkynnt um að önnur kona hafi verið stungin með hnífi við St Nikolas götu og sú þriðja við Oskars götu. Ekki liðu meira en tíu mínútur á milli fyrstu tilkynningarinnar til þeirrar síðustu.

Ein kvennanna bar kennsl árásarmanninn og var hann handtekinn á heimili sínu klukkustund eftir að fyrsta tilkynningin barst. Maðurinn verður yfirheyrður síðar í dag og hann hefur fengið verjanda skipaðan.

Maðurinn, sem er 31 árs, er norskur ríkisborgari en af erlendum uppruna. Hann verður ákærður fyrir manndráp og tilraun til manndráps. Talið er fullvíst að hann var einn að verki.

Vitað er að hann hefur glímt við geðræn veikindi en ekki er vitað hvort þau veikindi hafi haft einhver áhrif á gjörðir hans í gærkvöldi. Það er nú rannsakað en hann hafði dvalið um tíma á geðdeild. Að sögn yfirmanns rannsóknarinnar, Agnes Beate Hemiø, hefur hann hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot, samkvæmt frétt VG.

Vigdis Brandstorp hefur verið skipuð verjandi mannsins og hún segir í samtali við VG að hún sé á leiðinni til þess að hitta skjólstæðing sinn en hann verði yfirheyrður af lögreglu síðar í dag. 

Mikill viðbúnaður var hjá lögreglu vegna málsins og voru borgarbúar beðnir um að halda sig innandyra á meðan fjölmennt lið lögreglu var að störfum.

mbl.is