Lestarstjóri lést og tugir slösuðust

Lestin klessti á kyrrstæða flutningalest, en talið er að lestarstjórinn …
Lestin klessti á kyrrstæða flutningalest, en talið er að lestarstjórinn hafi farið yfir á rauðu ljósi. AFP

Lestarstjóri lést og tugir farþega slösuðust þegar lest rakst á kyrrstæða flutningalest skammt frá Prag, höfuðborg Tékklands, í gær. Um 100 farþegar voru um borð þegar slysið varð, um klukkan hálftíu í gærkvöldi að staðartíma. Var lestinn þá að renna í hlað á fjölfarinni stöð í bænum Cesky Brod, en hann er í um 30 kílómetra fjarlægð frá Prag.

Karel Havlickek, samgönguráðherra Tékklands, staðfesti banaslysið í sjónvarpsfréttum tékkneska ríkisútvarpsins í morgun. „Því miður hefu ég komist að því að einn er dáinn,“ sagði Havlicek sem greindi síðar frá því að lestarstjórinn hefði sennilega farið yfir á rauðu ljósi í aðdraganda slyssins.

Sjúkraflutningamenn komu að lestarstjóranum látnum í stjórnklefanum, en átta farþegar um borð voru með alvarlega áverka og 25 til viðbótar voru fluttir á spítala með minniháttaráverka.

Aðeins er vika síðan tveir létust og tugir slösuðust þegar innanlandslest lenti í árekstri í vesturhluta landsins.

mbl.is