Leitarhundar notaðir við leitina að Madeleine

Uppgröftur í garði skammt frá fyrrverandi heimili hins grunaða er …
Uppgröftur í garði skammt frá fyrrverandi heimili hins grunaða er hafinn í tengslum við leit að Madeleine McCann, sem hvarf vorið 2007. AFP

Þýska lögreglan hefur nú hafið uppgröft í garði í Hannover sem er talinn tengjast hvarfi Madeleine McCann. Réttarmeinafræðingar og leitarhundar eru nú að störfum í garði skammt frá fyrrverandi heimili Christian Brückner, að því er The Sun greinir frá. 

Brückner er grunaður um að hafa átt aðild að hvarfi Madeleine, sem hvarf úr hótelíbúð sem hún dvaldi í með fjölskyldu sinni í Portúgal vorið 2007.

Leitin fer fram á borgarlandi í Hannover í Þýskalandi.
Leitin fer fram á borgarlandi í Hannover í Þýskalandi. AFP

Leitað hefur verið síðan í morgun á garðlandinu, sem úthlutað er til borgarbúa, á milli Hannover-Ahlem og Seelze-Letter.

Christian Brückner bjó í Hannover árið 2010 og starfaði þar á bifvélaverkstæði, eftir að hafa búið í Portúgal. Sama ár var hann sakfelldur fyrir skjalafals og þremur árum síðar fyrir þjófnað. Nú situr hann inni fyrir fíkniefnabrot og verður látinn laus eftir 22 mánuði, verði ekki farið fram á gæsluvarðhald vegna hvarfs Madeleine McCann. 

AFP
mbl.is