Búast við 250 þúsund á mótorhjólasamkomu

Skipuleggjendur búast við allt að 250 þúsund gestum á árlega …
Skipuleggjendur búast við allt að 250 þúsund gestum á árlega mótorhjólahátíð í Suður-Dakóta sem hófst nú um helgina. AFP

Skipuleggjendur árlegrar mótorhjólasamkomu í Surgis í Suður-Dakótaríki í Bandaríkjunum eiga von á um 250 þúsund gestum á hátíðina Sturgis Motorcycle Rally sem nú er hafin og nær hámarki um miðja vikuna. Mikil andstaða er meðal bæjarstjóra og íbúa bæjarins við að hátíðin fari fram í ár og heilbrigðissérfræðingar óttast að hún verði gróðrarstía fyrir kórónuveirusmit.

Gestir hátíðarinnar á tónleikum á knæpu einni í Sturgis. Líklega …
Gestir hátíðarinnar á tónleikum á knæpu einni í Sturgis. Líklega er erfitt að halda tveggja metra fjarlægð þarna. AFP

Nú þegar eru þúsundir gesta komnar til bæjarins, en íbúar þar eru aðeins um sjö þúsund. CNN hefur eftir Christinu Steele, talsmanni bæjarins, að eins og áður sé fjölmennt á opnunarhelginni. Segir hún að hámark hátíðarinnar sé á miðvikudaginn, en eftir það fari svo að fækka í hópi gesta. Undanfarin ár hefur um hálf milljón gesta mætt, en vegna aðstæðna í kjölfar kórónuveirufaraldursins er í ár gert ráð fyrir helmingi færri gestum. Þetta er í áttugasta skiptið sem hátíðin fer fram.

Heilbrigðisyfirvöld óttast að hátíðin verði gróðrarstía fyrir kórónuveirusmit.
Heilbrigðisyfirvöld óttast að hátíðin verði gróðrarstía fyrir kórónuveirusmit. AFP

Við undirbúning hátíðarinnar var 172 „covid-sjúkrarúmum“ bætt við á heilbrigðisstofnunum bæjarins og þá voru keypt inn 1.300 covid-19-próf fyrir þá sem sýna einkenni.

Yfirvöld óttast að erfitt verði að gæta samskiptafjarlægðar milli gesta hátíðarinnar, en þeir koma hvaðanæva úr Bandaríkjunum og jafnvel víðar að. Yfirvöld í nálægum bæjum hafa einnig lýst áhyggjum sínum vegna hátíðarinnar, en vegna fjöldans teygir hún úr sér langt út fyrir Surgis.

Á ári hverju fyllist bærinn Sturgis af mótorhjólaáhugafólki. Íbúafjöldi þar …
Á ári hverju fyllist bærinn Sturgis af mótorhjólaáhugafólki. Íbúafjöldi þar er 7.000, en búast má við 250.000 manns í ár. AFP

Fjöldi kórónuveirusmita í Suður-Dakóta er enn sem komið er ekki mikill, en þó er smithlutfallið í ríkinu yfir mörkum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Engar reglur eru brotnar með hátíðarhöldunum þar sem ríkið bannaði aldrei samkomur eftir að faraldurinn blossaði upp.

Ríkisstjóri Suður-Dakóta, Kristi Noem, segir að á viðburðum sem þessum eigi fólk að fá upplýsingar um hættuna og hvernig það geti varið sig gegn veirunni, en það eigi samt að eiga kost á því að njóta lífsins.

Sturgis Motorcycle Rally hátíðin dregur að sér fjölda gesta.
Sturgis Motorcycle Rally hátíðin dregur að sér fjölda gesta. AFP

Bæjarstjóri Sturgis, Mark Carstensen, er þó ekki sáttur við hátíðarhöldin og segir ljóst að bæjaryfirvöld geti ekkert gert til að stoppa fólk í að koma. Samkvæmt könnunum eru um 60% bæjarbúa mótfallin því að hátíðin sé haldin í ár.

Ríkisstjóri Suður-Dakóta segir að fólk eigi að geta notið lífsins.
Ríkisstjóri Suður-Dakóta segir að fólk eigi að geta notið lífsins. AFP
mbl.is