Ríkisstjórn Líbanons segir af sér

Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanon.
Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanon. AFP

Viðbúið er að ríkisstjórn Líbanons stígi til hliðar síðar í dag, en mótmæli hafa staðið yfir í höfuðborginni Beirút síðustu daga í kjölfar sprengingar sem olli dauða yfir 200 manns. 

Heimildir bandarísku fréttastofunnar CNN herma að boðað verði til kosninga síðar í dag og að ríkisstjórn Líbanon stígi til hliðar og starfi sem starfsstjórn fram að kosningum. Nú þegar hafa þrír ráðherrar og sjö þingmenn sagt af sér. 

Hassan Diab, forsætisráðherra landsins, tók við embættinu í desember í kjölfar mótmæla gegn fyrrverandi ríkisstjórn landsins síðasta haust. 

Uppfært klukkan 14:55 Heimildir AFP fréttaveitunnar herma að ákveðið hafi verið á ríkisstjórnarfundi sem lauk fyrir skömmu að Hassan Diab tilkynni um það síðar í dag að hann muni stíga til hliðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert