Vímuaksturseftirlit ekki svipur hjá sjón

Vissara er að hafa allt sitt á þurru þegar lögreglan …
Vissara er að hafa allt sitt á þurru þegar lögreglan í Noregi tekur út ástand og hraða ökumanna enda liggur þar fangelsisrefsing við vímuakstri séu sakir miklar. Eftirlitið í sumar hefur þó verið í skötulíki vegna smithættu kórónuveiru. Ljósmynd/Norska lögreglan

Könnun norsku lögreglunnar á ástandi ökumanna á vegum landsins mánuðina júní og júlí hrapaði úr 106.311 tilfellum nefnda mánuði í fyrra niður í 7.043 tilfelli nú í ár sem eru sjö prósent af eftirlitinu fyrir ári.

Svo sem með ótalmargt annað í samfélögum heimsins árið 2020 er skýringin auðvitað heimsfaraldur kórónuveiru. Breytingin varð reyndar þegar í mars á þessu ári þegar lögregla hreinlega hætti að stöðva ökumenn og kanna ástand þeirra vegna smithættu. Undantekningarnar voru rökstuddur grunur um vímuakstur eða önnur lögbrot ökumanns.

„Núna athugum við málið eingöngu þegar ástæða er til að ætla að ökumaður sé í vímu. Það skýrir þessa miklu fækkun tilfella,“ segir Steven Hasseldal, aðstoðaryfirlögregluþjónn í norsku útkallslögreglunni, eða því sem kallast utrykningspolitiet, UP, og er eins konar sérdeild innan norsku lögreglunnar sem sinnir meðal annars umferðareftirliti og heyrir beint undir ríkislögreglustjóra. Það er norska ríkisútvarpið NRK sem spyr Hasseldal út í tölfræðina.

Fjölgun í nokkrum brotaflokkum

Sé litið yfir tölur sumarsins (júní og júlí) nú samanborið við 2019 kemur þó í ljós að flestir aðrir starfsþættir UP-deildarinnar en almennt eftirlit með ástandi ökumanna halda nokkurn veginn sjó, sums staðar hefur tilfellum jafnvel fjölgað þrátt fyrir að í heildina séu afskipti lögreglu mun minni en í meðalári.

Hraðasektum hefur til dæmis fjölgað um nær fjórðung, úr 18.287 í fyrra í 22.633 á þessu ári, ökuleyfissviptingum vegna hraðaksturs fjölgaði úr 1.117 í 1.354, sektum vegna óspennts öryggisbeltis úr 143 í 226 og afskipti vegna farsímanotkunar voru höfð 1.941 sinni í sumar en sú tölfræði var ekki skráð í fyrra. Þá eru vímuaksturstilfelli færri í ár, 453 á móti 503 í fyrra, en handtökum UP-lögreglunnar vegna ýmissa brota fækkar aðeins örlítið, úr 353 í 332.

Hasseldal segir fækkun vímuaksturstilfella, sem nemur 14 prósentum, engin ósköp. „Þarna gæti bara verið um eðlilega niðursveiflu að ræða og einnig að við höfum haft mun minna eftirlit. Við getum ekki ábyrgst að enginn hafi farið gegnum athugun og verið yfir mörkum (hlutfall vínanda í blóði við akstur má ekki vera yfir 0,2 prómillum í Noregi þótt frjálslyndið sé meira við stjórn báta þar sem mörkin eru 0,8 prómill).

Vonast eftir bragarbót

Elisabeth Fjellvang Kristoffersen, aðalritari Bindindissamtaka ökumanna (Motorførerens avholdsforbund) í Noregi er með böggum hildar yfir þverrandi eftirliti lögreglu á kórónutímum. „Þetta er mjög mikill samdráttur sem er auðvitað ekki gott. Ljóst má vera að því minna sem er um eftirlit með vímuakstri þeim mun meiri eru líkurnar á að einhverjir sleppi með skrekkinn,“ segir Kristoffersen.

Vonast hún til að lögreglan geri bragarbót á og eftirlitið nálgist á ný það stig sem það var á. „Það er mikilvægt að fólk fái ekki þá hugmynd að ekkert sé því til fyrirstöðu að aka í vímu og eins að aðrir tilkynni um slíka háttsemi.

Hasseldal aðstoðaryfirlögregluþjónn segir vel mega vera að lögregla auki eftirlit sitt á norskum vegum á ný, það sé metið frá viku til viku. „En svo lengi sem ástandið [kórónuveiran] virðist ekki færast til betri vegar höldum við áfram eins og við höfum gert undanfarið,“ segir hann.

NRK

NRKII (breytt vinnubrögð lögreglu í mars)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert