Sex látnir í skógareldum í Kaliforníu

„Við höfum ekki séð neitt í líkingu við þetta í mörg, mörg ár,“ segir Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, um gríðarlega umfangsmikilla skógarelda í ríkinu. Að minnsta kosti sex eru látnir og á annað hundruð þúsund hafa flúið heimili sín. Newsom hefur óskað eftir aðstoð frá Ástralíu og Kanada.

Afar þurrt er í Kaliforníu um þessar mundir vegna hitabylgju. Um 12 þúsund eldingar urðu í ríkinu á 72 klukkustundum og talið er að einhverjar af þeim hafi leitt til þess að kviknaði í gróðri í Norður- og Mið-Kaliforníu.

Tveir stærstu eldarnir, kallaðir SCU Lightening Complex og LNU Lightening Complex, hafa farið yfir tæplega 600 þúsund ekrur.

Um 12 þúsund slökkviliðsmenn berjast við skógareldana.
Um 12 þúsund slökkviliðsmenn berjast við skógareldana. AFP

Óska eftir aðstoð frá heimsins bestu slökkviliðsmönnum

Fleiri en 12 þúsund slökkviliðsmenn berjast við skógareldana og Daniel Berland, aðstoðarslökkviliðsstjóri í Kaliforníuríki, sagði að slökkvistarfi miði áfram en að von væri á frekari eldingum sem gætu kveikt fleiri elda.

Slökkvilið frá nærliggjandi ríkjum, Oregon, Nýja-Mexíkó og Texas, hafa boðið fram aðstoð sína að sögn Newsom. En í ljósi þess hversu umfangsmiklir eldarnir eru og hversu alvarlegt ástandið er sagðist hann hafa óskað eftir aðstoð frá „bestu slökkviliðsmönnum í heimi“ frá Kanada og Ástralíu.

„Við erum ekki barnaleg í mati okkar á hversu mannskæðir eldarnir eru og þess vegna er mjög mikilvægt að þið farið eftir rýmingarfyrirmælum og takið þau alvarlega,“ sagði Newsom við íbúa Kaliforníu á blaðamannafundi.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert