Segir „afneitun“ Trumps ekki virka

„Ég held að það megi frekar tengja þetta við stjórnunarástand. …
„Ég held að það megi frekar tengja þetta við stjórnunarástand. Ef þú ferð til annarra landa, Evrópu, Austurríkis, Finnlands... það eru skógarþjóðir. Þær eru í skógum og eiga ekki við vanda sem þennan að stríða,“ sagði Trump á kynningarfundi í gær. AFP

„Afneitun virkar ekki þegar kemur að loftslagi. Afneitun kostar það að fólk týnir lífum sínum og lifibrauði,“ sagði Eric Garcetti, borgarstjóri Los Angeles í Bandaríkjunum í samtali við CNN í dag, og brást þannig við fullyrðingum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að kenna mætti lélegri landstjórn um gífurlega gróðurelda í Kaliforníu. 

Eldarnir hafa nú haft í för með sér eyðileggingu á um 1,3 milljóna hektara svæði. Hátt í 16.500 slökkviliðsmenn hafa barist við eldana, þeir stærstu eru um 28 talsins. 24 eru látnir vegna eldanna og eru 4.200 byggingar eyðilagðar. Reykur fá eldunum hefur gert mörgum erfitt fyrir að yfirgefa heimili sín. Hættan á frekari eldum hefur neytt yfirvöld til að loka fyrir rafmagn á heimilum þúsunda íbúa. 

Bar Bandaríkin saman við Finnland

Trump heimsótti Kaliforníu í gær og fór á kynningarfund með slökkviliðs- og lögreglumönnum á staðnum um skógareldana. Rétt fyrir fundinn var forsetinn spurður hvaða þátt loftslagsbreytingar ættu í eldunum. 

„Ég held að það megi frekar tengja þetta við stjórnunarástand. Ef þú ferð til annarra landa, Evrópu, Austurríkis, Finnlands... það eru skógarþjóðir. Þær eru í skógum og eiga ekki við vanda sem þennan að stríða,“ sagði Trump. 

Eyðileggingin vegna eldanna er gífurleg.
Eyðileggingin vegna eldanna er gífurleg. AFP

Myndi ekki segja hið sama í sveiflufylki

Garcetti sagði að viðbrögð forsetans yllu honum vonbrigðum. Trump sæi ástandið sem flokksbundið málefni og kenndi yfirvöldum í Kaliforníu um ástandið í stað þess að horfa á það sem náttúruhamfarir. Forsetakosningar í Bandaríkjunum eru skammt undan en þær fara fram í nóvember.

„Alríkisstofnanir hafa brugðist við og hjálpað okkur. Þær vita að við þurfum á aðstoð þeirra að halda. Aftur á móti heldur forsetinn áfram út frá kosningakortinu og sakar Kaliforníu um lélega stjórnun. Hann myndi ekki segja slíkt í sveiflufylki. Þar myndi hann til dæmis ekki kenna fylkinu um fellibylji.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert