70 taldir fastir í rústum byggingar sem hrundi

Byggingin var fimm hæðir og í henni voru 47 íbúðir.
Byggingin var fimm hæðir og í henni voru 47 íbúðir. Ljósmynd/Twitter

Að minnsta kosti 70 manns eru taldir vera fastir í rústum fimm hæða íbúðabyggingar sem hrundi í bænum Mahad í vesturhluta Indlands. Byggingin er sögð hafa hrunið eins og spilaborg.

Byggingin samanstóð af 47 íbúðum og það er enn óljóst hvers vegna hún hrundi en það er ekki óalgengt að byggingar hrynji á monsún tímabilinu í Indlandi, sem er frá júní til september, þar sem að látlaus rigning og flóð sem fylgja eiga það til að grafa undan stoðum þeirra.

„Það er búið að bjarga 15 manns og koma þeim á spítala,“ sagði í yfirlýsingu frá lögreglunni í Mahad.

Þrjú björgunarteymi, vopnuð sérstökum búnaði og leitarhundum, hafa verið send á vettvang, sagði í yfirlýsingu frá Náttúruhamfarastofnun Indlands.

Fyrrum borgarfulltrúi í Mahad, Manik Motiram Jagtap, sagði við fjölmiðilinn TV9 Marathi að byggingin væri 10 ára gömul og væri byggð á „veikum“ grunni. „Hún hrundi eins og spilaborg. Þetta er ógnvekjandi ástand,“ sagði hann.

Í indverskum fjölmiðlum má sjá íbúa á svæðinu og lögreglumenn leita ákaft af eftirlifendum í rústunum.

Dauðsföll sem rekja má til náttúruhamfara vegna monsúnrigninga á þessu ári eru 1.200 talsins og þar af hafa 800 látið lífið í Indlandi.

Hér sést hvernig byggingin var áður en hún hrundi.
Hér sést hvernig byggingin var áður en hún hrundi. Ljósmynd/Indian Express
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert