Urgur í Norðmönnum vegna símatrúboðs

Vottar Jehóva boða Norðmönnum nú fagnaðarerindið símleiðis og sýnist sitt …
Vottar Jehóva boða Norðmönnum nú fagnaðarerindið símleiðis og sýnist sitt hverjum. Á spjallsíðu er bent á að SMS-skeyti og símtöl frá vottum hafi tíðkast löngu fyrir kórónuveirufaraldurinn og gjarnan í kjölfar þess að bankað var upp á en enginn kom til dyra. Samsett mynd/Varden.no

Nýjar nálganir Votta Jehóva í Noregi við trúboð sitt, eftir að kórónuveirufaraldurinn gerði fjarlægð milli fólks að hinu nýja boðorði heimsbyggðarinnar, hafa farið fyrir brjóstið á ýmsum sem söfnuðurinn vill kunngera ríki Jehóva.

Eftir að Noregi var að mestu skellt í lás 12. mars og fólk beðið þess lengst allra orða að halda sig hvert frá öðru tók að bera á símtölum frá vottunum og virtust móttakendur þeirra valdir af handahófi úr norsku vefsímaskránni 1881.no.

„Ég læt bara hringja út,“ segir May Lise Johannessen í Skudeneshavn í Karmøy, úti fyrir Haugesund við vesturströnd Noregs, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Johannessen hefur fengið ítrekaðar hringingar frá vottunum síðan í sumar. „Mér finnst það nú ekki alveg boðlegt að þeir hringi bara í mig í mitt einkanúmer,“ segir hún.

Hringdu í níu ára dóttur

Víðar hefur umræða skapast um símatrúboðið, svo sem á síðunni Foreldreportalen þar sem norskir foreldrar ræða allt milli himins og jarðar um börn, svo sem hvar góðir vetrarskór á tólf ára dreng fáist og hvar kaupa megi nothæfar skólatöskur.

Þar spyr foreldri sem kallar sig „EA“, á spjallþræði fyrir „almenna umræðu“, hvort vottarnir megi þetta. „Emilie frá Vottum Jehóva hringdi í mig áðan,“ skrifar „EA“. „Þegar ég spurði hana hvar hún hefði fengið númerið mitt sagði hún á 1881. Ég benti henni á að ég væri með bannmerkingu fyrir símasölu. „En ég ætla ekki að selja neitt.“ Yeah right!“ skrifar EA og spyr í framhaldinu hvort trúfélögum sé þetta heimilt.

„Tjorven“ svarar að þetta geti ekki verið ólöglegt úr því viðkomandi hafi fundið númerið í opinberri símaskrá. „Þeir hringdu í mig þegar þeir stóðu við dyrnar hjá mér af því að ég var ekki heima og það var fyrir kórónuveiruna,“ skrifar „polarjenta“. Hún segir að sér hafi þótt þetta of langt gengið en varla sé það ólöglegt.

„Elsta dóttir mín, sem þá var níu ára, fékk SMS frá þeim þar sem sagt var að þeir hefðu reynt að hringja í hana og báðu hana að hringja til baka af því að þeir vildu ræða boðskap páskanna við hana. Þetta byrjaði sem sagt ekki eftir kórónufaraldurinn,“ skrifar „My“.

Fá ekki fleiri kvartanir núna en venjulega

Odd Arne Trengereid, talsmaður Votta Jehova í Karmsund, segir við NRK að hann skilji að fólk geti brugðist ókvæða við símatrúboðinu. „En við höfum ekki fengið neitt fleiri kvartanir núna en við heimsóknir,“ segir Trengereid, „sumir hlusta á okkur en aðrir segja okkur skýrt frá því að þeir vilji ekki að við höfum samband við þá.“

Kveður Trengereid símasamskiptin þó öllu óþægilegri leið en hefðbundnar heimsóknir. „Mörgum félögum okkar fellur það illa að hringja og óttast að á þá verði litið sem sölumenn og það erum við ekki. Mun betra er að hitta fólk og horfa í augu þess. En við getum ekki tekið þá áhættu að fólk smitist vegna þess að við vanrækjum sóttvarnir,“ segir Trengereid og bætir því við að Vottar Jehóva hafi í raun gengið skrefinu lengra en norsk yfirvöld.

„Við erum strangari en yfirvöldin. Þótt við höfum leyfi til að koma 50 saman höfum við haldið alla okkar fundi á netinu síðan í mars,“ vottar Trengereid að lokum við NRK.

Yfirlæknir lofar framtakið

Jostein Helgeland, bæjaryfirlæknir Haugesund, kveðst ánægður með breyttar áherslur vottanna og segir þá hafa gert það eina rétta með því að hætta að heimsækja fólk á viðsjárverðum tímum. „Ég er ánægður með þetta, við höfum beðið iðnaðarmenn og alla aðra að láta af heimsóknum til fólks. Annars hefðum við bara þurft að banna þetta,“ svarar hann lokaspurningu NRK, um hver viðbrögðin hefðu orðið hefðu húsvitjanir safnaðarins haldið áfram í óbreyttri mynd.

NRK

S24

mbl.is