Fannst látin á heimili sínu

Grete Lien Metlid, deildarstjóri rannsóknardeildar, á blaðamannafundi sem tengist öðru …
Grete Lien Metlid, deildarstjóri rannsóknardeildar, á blaðamannafundi sem tengist öðru sakamáli. Ljósmynd/Skjáskot af VGTV

Maður á fimmtugsaldri er í haldi lögreglu í Ósló eftir að móðir hans, sem var á sjötugsaldri, fannst látin í íbúð sinni þar í borginni í gær. Benti aðkoman á vettvangi til þess að andlát konunnar hefði borið að með saknæmum hætti, að sögn Grete Lien Metlid, deildarstjóra rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló.

Ábending frá heilbrigðisstarfsfólki varð kveikjan að því að lögregla ákvað að fara inn í íbúðina þar sem húsráðandi fannst örendur.

„Aðrar upplýsingar sem okkur hafa borist og kringumstæður á vettvangi urðu til þess að okkur grunaði að um manndráp væri að ræða og var því rannsókn hafin á þeim forsendum,“ segir Metlid við norska dagblaðið VG.

Er samvinnuþýður

Sonur konunnar var í kjölfarið handtekinn annars staðar í borginni, grunaður um að hafa stytt móður sinni aldur, og hefur Marijana Lozic verið skipuð verjandi hans. Átti Lozic fund með skjólstæðingi sínum í gærkvöldi og kvað of snemmt að segja til um afstöðu grunaða til sakarefnisins þegar fjölmiðlar ræddu við hana. 

Dagblaðinu Aftenposten tjáði hún að grunaði sýndi samstarfsvilja en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um stöðu mála, hvorki um ástand grunaða né hvort hann hefði hlotið refsidóma áður.

Að sögn Metlid verður maðurinn yfirheyrður í dag og mun lögregla taka afstöðu til þess á mánudag hvort farið verði fram á gæsluvarðhaldsúrskurð.

VG

ABC Nyheter

Aftenposten

TV2

mbl.is