Trump hringdi í norræna þingmenn

Donald Trump Bandaríkjaforseti er meðal 318 manna sem voru tilnefndir …
Donald Trump Bandaríkjaforseti er meðal 318 manna sem voru tilnefndir til friðarverðlauna Nóbels að þessu sinni. Þúsundir manna, þar á meðal þingmenn allra þjóðþinga heims, hafa rétt til að senda inn tilnefningar. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hringdi í gær í tvo þingmenn, sænskan og norskan, til að þakka þeim fyrir að tilnefna sig til friðarverðlauna Nóbels. Þingmennirnir greina frá þessu á Twitter.

„Ég var á leið í hesthúsið með dóttur minni þegar Donald Trump hringdi og þakkaði mér fyrir tilnefninguna,“ skrifar Magnus Jacobsson, þingmaður Kristilegra demókrata í Svíþjóð á Twitter. „Við áttum gott samtal um frið í Mið-Austurlöndum og á Balkanskaganum. Ég óska forsetanum góðs gengis í friðarumleitununum.“

Christian Tybring-Gjedde, þingmaður norska þjóðernisflokksins Framfaraflokksins, segir í samtali við AFP að hann hafi sömuleiðis fengið símtal frá Trump. „Það var bara til að þakka mér fyrir tilnefninguna,“ segir hann án þess að vilja fara nánar út í efni samtalsins.

„Þetta kom mér á óvart. Það var mjög gott af honum að gera það. Ég held ekki að allir myndu gera það. Hann er mjög viðkunnanlegur,“ segir Tybring-Gjedde. Hann rökstyður tilnefninguna með vísan í samkomuag Ísraels og Sameinuðu arabísku furstadæmanna en Trump átti þar hlut að máli. Sá sænski vísar aftur á móti til tilrauna Trumps til að koma á sáttum milli Serba og Kósóva.

Mörg nöfn í pottinum

Trump forseti hefur tekið tilnefningunum fagnandi og meðal annars vísað til þeirra í kosningaherferð sinni. Hann hefur enda látið hafa eftir sér áður að hann eigi verðlaunin skilin. 

Tilkynnt verður í næsta mánuði hver hlýtur friðarverðlaun Nóbels þetta árið, en verðlaunin verða síðar veitt 10. desember. Vegna kórónuveirufaraldursins verður athöfnin smærri í sniðum en venjan er og mun athöfnin ekki fara fram í ráðhúsi Óslóarborgar eins og venja er, heldur í samkomusal Háskólans í Ósló.

318 manns voru tilnefndir til verðlaunanna að þessu sinni, og hafa sjaldan verið fleiri. Æði margir hafa enda rétt til að senda inn tilnefningar, svo sem allir þingmenn heims, þjóðhöfðingjar, prófessorar í félagsvísindum og skyldum greinum, dómarar við Alþjóðadómstólinn og fleiri. Hefur Nóbelsstofnunin af þeim sökum lagt áherslu á að tilnefning sé á engan hátt til marks um stuðning hennar.

Tilnefningar eru ekki birtar opinberlega fyrr en að 50 árum liðnum, en ekkert stendur þó í vegi fyrir að menn greini frá því hafi þeir tilnefnt einhvern.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert