Leita leka að geimstöðinni

Leki virðist kominn að Alþjóðlegu geimstöðinni.
Leki virðist kominn að Alþjóðlegu geimstöðinni. AFP

Ekki hefur tekist að greina uppruna leka sem virðist kominn að Alþjóðlegu geimstöðinni. Geimfarar voru vaktir upp um nótt í byrjun vikunnar og beðnir að leita lekans en hann virtist aukast á mánudag. Þá greindust hitabreytingar inni í geimstöðinni.

Greining leiddi í ljós að lekann mátti rekja til vinnusvæðis í Zvezda-álmunni. Þar er að finna vistarverur fyrir tvo geimfara og stjórnstöð.

Frekari greiningar er þörf til að staðsetja nákvæmlega staðinn þar sem lekinn á sér stað, að því er segir í frétt BBC um málið. Nasa hefur lýst því yfir að engin hætta steðji að geimförum að svo komnu máli og að óbreyttu feli þessi uppákoma aðeins í sér tilfærslu á vinnuáformum þeirra.

Uppákoman á mánudag var sú þriðja á rúmum mánuði þar sem geimfarar um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni urðu að loka sig af í Zvezda-álmunni í leit að lekanum sem heldur áfram að aukast.

mbl.is