Kórónuveirupróf of næm og tefji smitrakningu

Kórónuveirusý tekið í Brooklyn-hverfi New York-borgar. Sumir fræðimenn vestra vilja …
Kórónuveirusý tekið í Brooklyn-hverfi New York-borgar. Sumir fræðimenn vestra vilja meina að prófanir þar í landi séu of næmar og tefji fyrir smitrakningu. AFP

Sérfræðingar í veirufræðum í Bandaríkjunum segjast margir hverjir áhyggjufullir yfir því að margir þeir sem greinist með kórónuveirusmit þar í landi séu ef til vill ekki nægilega smitandi til þess að ástæða sé fyrir einangrun eða sóttkví. Kórónuveirupróf séu of næm og taki ekki tillit til þess hve smitandi kórónuveirusmitaðir eru í raun og veru. Þetta veldur því að dýrmætur og of langur tími fer í að einangra einstaklinga sem eru ekki smitandi og að rekja smit þeirra.

Í grein New York Times segir að rannsóknir sýni að margir þeirra sem greinast með kórónuveiruna séu ekki mikið smitandi. Þá segir að prófanir í New York-ríki, Nevada og í Massachusetts sýni að allt að 90% þeirra sem smitast af kórónuveirunni hafi ekki borið neina veiru í sér. Á fimmtudag greindust rétt ríflega 45 þúsund manns með kórónuveiruna í Bandaríkjunum. Ef tölurnar úr fyrrgreindum prófunum um smithættu þeirra sem greinast, ætti einungis að grípa til einangrunar og smitrakningar í 4.500 tilfellum.

Magn veiru það sem skiptir máli

Þá segir einn bandarískur sérfræðingur að veiruprófanir sem notast er við núna séu svo næmar að stundum finnist aðeins það magn veiru sem bera mætti saman við að finna eitt mannshár inni í herbergi, mörgum klukkustundum eftir að manneskjan sem hárið tilheyrði yfirgaf herbergið.

Sérfræðingar segja lausnina vera hraðvirkari próf sem séu ekki eins næm og prófin sem notast er við núna. Of langan tíma taki að fá niðurstöður úr þeim prófunum sem nú eru notuð. Einnig mætti reyna að fá úr því skorið hraðar hversu smitandi einstaklingur er, sem greinist með kórónuveiruna. Þannig mætti forgangsraða betur hvaða smit þarf að rekja og hverja er brýnt að setja í einangrun eða sóttkví.

mbl.is