Nauðgunarkæra til rannsóknar að nýju

Gerard Depardieu.
Gerard Depardieu. AFP

Rannsókn á hendur franska leikaranum Gérard Depardieu verður endurvakin en hann var kærður fyrir nauðgun í ágúst 2018. Rannsókn var hætt í júní í fyrra vegna skorts á sönnunargögnum. 

Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að unga konan sem kærði Depardieu fyrir nauðgun hafi mótmælt ákvörðun lögreglunnar um að fella rannsóknina niður og höfðað einkamál gegn leikaranum. Dómari hafi fallist á beiðnina og því verði málið rannsakað að nýju.

Um er að ræða leikkonu á þrítugsaldri en hún sakaði leikarann um að hafa nauðgað sér í tvígang í íbúð hans í 6. hverfi Parísarborgar. Ofbeldið hafi átt sér stað 7. og 13. ágúst 2018.

Depardieu, sem er á áttræðisaldri, hefur alla tíð harðneitað því að hafa nauðgað henni en sagði við lögreglu að þau hefðu átt í sambandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert