ÖSE segir Trump grafa undan trausti almennings

Forsvarsmenn ÖSE eru harðorðir í garð Trump.
Forsvarsmenn ÖSE eru harðorðir í garð Trump. AFP

Umsjónarmaður kosningaeftirlits hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), Michael Georg Link segir í fréttatilkynningu um bandarísku forsetakosningarnar í gær að Trump Bandaríkjaforseti græfi undan trausti almennings á lýðræðislegum stofnunum með tilhæfulausum ásökunum sínum á hendur demókrötum um kosningasvindl.

Enn liggja úrslit kosninganna ekki fyrir en Trump hefur sagt að þeir sem telji atkvæðin í ríkjum á borð við Pennsylvaníu, Michigan og Wisconsin „fyndu“ atkvæði greidd Joe Biden, frambjóðanda demókrata, og bættu þeim við þau atkvæði sem ekki hafa enn verið talin. Með öðrum orðum er Trump að saka mótframbjóðanda sinn um kosningasvindl.

Gagnrýna lög um kosningarétt

Í tilkynningu ÖSE er einnig tekið fram að starfsmenn yfirkjörstjórna í Bandaríkjunum hafi staðið sig með eindæmum vel þrátt fyrir gríðarlegar áskoranir sem til verða vegna kórónuveirufaraldursins. Enn er verið að telja atkvæði í nokkrum ríkjum vegna þess hve margir kjósendur nýttu sér póstatkvæði í stað þess að mæta á kjörstað. Víða tekur talning þeirra atkvæða lengri tíma.

Þá er það gagnrýnt að lög um auðkenningu á kjörstað bitni hlutfallslega verr á sumum þjóðfélagshópum, sem leggur stein í götu kjósenda úr þeim þjóðfélagshópi. Ekki er þó tekið fram við hvaða þjóðfélæagshópa er átt við, en leiða má að því líkur að átt sé við um minnihlutahópa.

Þá er einnig gagnrýnt að í Bandaríkjunum fái fyrrum fangar víðs vegar ekki að kjósa í forsetakosningunum. Þetta er sagt ganga í berhögg gegn gildum um almennan kosningarétt.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert