Trump segir reynt að stela kosningunum

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir ekki mega greiða atkvæði eftir kjördag. …
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir ekki mega greiða atkvæði eftir kjördag. Það er rétt, en vitanlega má enn telja þau atkvæði sem bárust í tíð. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti boðar á twittersíðu sinni að hann muni ávarpa kjósendur síðar í nótt. „Ég mun vera með yfirlýsingu í nótt. Stór SIGUR,“ skrifar forsetinn. Óvíst er hvort þetta má túlka sem svo að forsetinn sé að lýsa yfir sigri. Hann er enda vanur að nota þennan frasa „stór sigur“ um hina ýmsu hluti. 

Eitt er þó víst; Donald Trump hefur ekki enn tryggt sér sigur í kosningunum þótt útlitið sé bjart fyrir hann um þessar mundir. Enn eru 102 kjörmenn í pottinum, sem enginn virtur fjölmiðill hefur viljað lýsa því yfir að nokkur frambjóðandi hafi tryggt sér.

Gerir það sem óttast var

Trump heldur áfram og skrifar: „Við höfum farið upp STÓRT en þeir eru að reyna að STELA kosningunum. Við munum aldrei leyfa þeim að gera það. Það er ekki hægt að kjósa eftir að kjörstöðum er lokað.“

Twitter hefur merkt síðari færsluna sérstaklega sem „umdeilda eða misvísandi“.

Nokkuð ljóst er að Trump ætlar að leika nákvæmlega sama leik og stjórnmálaskýrendur höfðu óttast, að reyna að tortryggja þau atkvæði sem talin verða síðar.

Metfjöldi utankjörfundaratkvæða var greiddur í þessum kosningum og slík atkvæði getur tekið lengri tíma að telja. Lengi hefur legið fyrir að demókratar væru líklegri en repúblikanar til að greiða atkvæði og af þeim sökum hafði því verið spáð að í sveifluríkjum kynnu úrslitin að verða hagfelldari demókrötum eftir því sem líður á talningu, sem gæti jafnvel staðið í nokkra daga.

Biden gæti saxað á

Í fréttaskýringu Axios, sem birtist á sunnudag, var þetta rakið í þaula. Nefnt var hvernig sveifluríkið Pennsylvanía gæti ráðið úrslitum kosninganna. Þar eru kjörmenn 20.

Þegar þetta er skrifað hafa 65% atkvæða verið talin og leiðir Trump með 56,6% atkvæða gegn 42,1% frá Biden. Líkt og rakið var í frétt Axios er þó talið að talning þeirra atkvæða sem upp á vantar gæti tekið upp undir nokkra daga og Biden saxað á eftir því sem utankjörfundaratkvæðin tínast inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert