Aðstoðarborgarstjóri grunaður um nauðgun

Ráðhús Parísar, Hôtel de Ville.
Ráðhús Parísar, Hôtel de Ville. Wikipedia/Rolldi

Fyrrverandi aðstoðarborgarstjóri Parísar var yfirheyrður af lögreglu í dag en hann er grunaður um að hafa nauðgað og beitt mann öðru kynferðisofbeldi í nokkur skipti á tíunda áratug síðustu aldar. 

Christophe Girard sagði af sér embætti í júlí vegna þrýstings af hálfu annarra stjórnmálamanna og kvenréttindasamtaka vegna tengsla hans við rithöfundinn Gabriel Matzneff, margverðlaunaðan rithöfund sem er sakaður um ítrekað barnaníð áratugum saman.

Girard var næstur Anne Hidalgo í embætti hjá Parísarborg. Nokkrum vikum eftir að hann lét af störfum greindi New York Times frá því að hann hefði beitt barn ítrekað kynferðisofbeldi. Í kjölfarið hóf kynferðisbrotadeild lögreglunnar rannsókn á ásökununum.

Christophe Girard.
Christophe Girard. Wikipedia/Yann Caradec

NYT hafði eftir Aniss Hmaid, sem er 46 ára í dag, að Girard hefði beitt sig kynferðislegu ofbeldi ítrekað í tæpan áratug eftir að þeir kynntust í Túnis þegar Hmaid var 15 ára gamall.

Hmaid sakaði Girard um að hafa þvingað sig til kynmaka í um 20 skipti næstu árin. „Hann notfærði sér ungan aldur minn, æsku mína, í þeim tilgangi að fá kynferðislega fullnægju,“ segir Hmaid í viðtalinu við NYT.

Girard, sem er 64 ára gamall, segir ekkert hæft í ásökunum Hmaids. Í starfi sínu fyrir Parísarborg var hann yfirmaður menningarmála en áður var hann hjá Saint-Laurent-tískuhúsinu og sá meðal annars um greiðslur þess til Matzneffs. 

Rithöfundurinn, sem hefur aldrei farið leynt með að vera barnaníðingur, verður leiddur fyrir dóm á næsta ári sakaður um að upphefja barnaníð. 

Vanessa Springora kippti fótunum undan dýrkun á Matzneff í Frakklandi fyrr á árinu þegar hún gaf út endurminningar sínar, Consent, þar sem hún lýsir því hvernig Matzneff beitti hana kynferðislegu ofbeldi er hún var 14 ára gömul. Síðan þá hafa tvær aðrar konur stigið fram og sagt frá því að hann hafi beitt þær kynferðisofbeldi þegar þær voru á unglingsaldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert