„Ég get ekki fyrirgefið sjálfum mér“

Níu ára Anita.
Níu ára Anita.

„Ég heiti Anita Iranejad, ég er frá Sardasht.“ Á þessum orðum hefst myndskeið af níu ára kúrdískri stúlku í Íran. 

Í bakgrunni myndbandsins, sem er prufutaka fyrir stuttmynd sem taka átti upp í Sardasht, heyrist í föður Anitu, Rasoul Iranejad, hvetja hana áfram: „Ég vil verða leikkona ... segðu það.“ 

Myndbandið gefur ekki aðeins til kynna stolt Rasouls af dóttur sinni, heldur einnig metnað hans fyrir hennar hönd. Rasoul vill að Anita elti drauma sína, en í Sardasht, kúrdískum bæ í vesturhluta Írans þar sem fátækt er mikil og pólitískar ofsóknir algengar, rætast draumar níu ára stúlkna ekki oft. 

Ári eftir að myndbandið var tekið upp hélt Rasoul ásamt eiginkonu sinni Shivu Mohammad Panahi og þremur börnum þeirra, Armin, sex ára, Anitu og hinum 15 mánaða Artin, í mikla hættuför til Evrópu í leit að betra lífi fyrir Anitu og systkini hennar. 

Fjölskyldan yfirgaf Íran í byrjun ágúst þessa árs. Vinkona Shivu sagði í samtali við BBC að Rasoul hefði verið að flýja ofsóknir íranska yfirvalda. Hún sagði að Shiva hefði selt allar eignir fjölskyldunnar og þau fengið lánaða peninga hjá vinum og fjölskyldu til þess að geta greitt smyglara sem gæti flutt fjölskylduna til Evrópu, nánar tiltekið Bretlands. 

Misstu allt 

Fyrsta stopp fjölskyldunnar á leið sinni til Bretlands var Tyrkland. Í myndbandi sem vinir Rasoul deildu með BBC má sjá fjölskylduföðurinn syngja á kúrdísku þar sem þau bíða eftir smyglurum. 

„Við eigum enga vini aðra en fjöllin,“ er vinsælt orðatiltæki meðal Kúrda. Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar og falls Ottómanveldisins var Kúrdum lofað sjálfstæði af bandamönnum. Ekkert varð úr því og Kúrdar eru enn í dag þjóð án föðurlands og búa víðsvegar um ríki Mið-Austurlanda. 

Áður fyrr festu þúsundir íranskra hælisleitenda rætur í Tyrklandi, en á síðustu árum hefur pólitískt loftslag í Tyrklandi gert það að verkum að landið er ekki ákjósanlegur áfangastaður fyrir hælisleitendur. Meðal annars hefur verið greint frá því að tyrkneskar öryggisveitir hafi beitt kúrdíska flóttamenn grófu ofbeldi á lögreglustöðvum eða endursent þá til Írans við komuna til Tyrklands. 

Rasoul og Shiva voru þess vegna ákveðin í að halda ferðalaginu áfram. Í september síðastliðnum greiddu þau smyglurum 24.000 evrur, sem jafngildir tæplega fjórum milljónum króna, fyrir flutning með ferju frá Tyrklandi til Ítalíu. Frá Ítalíu var fjölskyldan síðan flutt í vöruflutningabíl til Frakklands. 

Í Frakklandi var fjölskyldan síðan rænd öllum eignum sínum. Í skilaboðum sem Shiva sendi vini sínum í Calais játar hún að bátsferðir séu hættulegur ferðamáti en fjölskyldan hafi ekki efni á öðru. „Ég veit að það er hættulegt en við eigum ekki annarra kosta völ,“ sagði Shiva í skilaboðunum. 

Kallaði í örvæntingu á fjölskyldu sína 

Vinur Rasouls sem ferðaðist með fjölskyldunni til Frakklands segir að aðfaranótt 26. október hafi smyglari í Dunkirk ákveðið að ferðin yfir Ermarsundið yrði farin næsta dag. 

Þau yfirgáfu strendur Dunkirk snemma morguns 27. október. Veður var vont og náðu vindhviður 30 metrum á sekúndu. Vinur Rasouls ákvað að vera eftir í Dunkirk. 

„Ég var hræddur, ég neitaði að fara. Ég grátbað Rasoul að fara ekki. En hann sagðist ekki hafa neitt val,“ segir vinurinn við BBC. 

Rasoul, 35 ára, með 15 mánaða gamlan Artin, Shiva, 35 …
Rasoul, 35 ára, með 15 mánaða gamlan Artin, Shiva, 35 ára, Anita og Armin.

Ebrahim Mohammadpour, 47 ára kvikmyndagerðarmaður frá Sardasht, var um borð í bátnum ásamt fjölskyldu Rasouls auk sonar síns og bróður. Hann segir að báturinn sem flytja átti hælisleitendurna yfir Ermarsundið hafi verið hannaður fyrir átta farþega, en að 23 hafi verið um borð, 22 kúrdískir hælisleitendur og skipstjórinn sem var flóttamaður frá norðurhluta Írans. 

„Hreint út sagt vorum við algjörlega blinduð því við höfðum þegar gengið í gegnum svo miklar þjáningar,“ segir Ebrahim. 

Yasin, 16 ára hælisleitandi sem einnig var um borð í bátnum, segir að einungis hann og tveir aðrir hafi verið í björgunarvesti. 

Shiva og börn hennar þrjú komu sér fyrir í káetu bátsins, sem leit út fyrir að vera hlýrri og öruggari í vondu veðrinu. 

Eftir um átta kílómetra siglingu fór báturinn síðan að fyllast af vatni að sögn Ebrahims. Bróðir hans Mohammad segir að bátnum hafi síðan án fyrirvara hvolft. 

Atburðarásin er ekki skýr, en vitnum ber þó saman um að Shiva og börn hennar hafi verið föst í káetu bátsins. 

Ebrahim segir að Rasoul hafi farið í kaf til að reyna að bjarga fjölskyldu sinni og síðan komið upp aftur og kallað í örvæntingu á hjálp. 

Peshraw, háskólanemi um borð í bátnum, segir að Rasoul hafi reynt að brjóta glugga káetunnar með dúkahníf en án árangurs. Hann segist hafa séð Artin litla fljóta um í káetunni. Rasoul tókst síðan að ná Artin úr káetunni og fór síðan aftur inn til að sækja Shivu og hin börnin tvö. 

Ebrahim rifjar upp hvernig hann sá Anitu fljóta um í hafinu. „Ég hélt á barninu í sjónum. Ég hélt að hún gæti verið á lífi. Með annarri hendi hélt ég á henni og með hinni hélt ég í bátinn. Ég hristi hana til en fékk engin viðbrögð. Ég get ekki fyrirgefið sjálfum mér,“ segir Ebrahim. 

Lét öldurnar taka sig

Mohammed segir að Rasoul hafi komið aftur upp úr kafi, stynjandi og grátandi, hrópandi nöfn barna sinna og konu áður en hann hafi látið öldurnar taka sig. 

Eftirlifendur telja að fjölskyldan hafi verið löngu látin þegar björgunaraðilar komu á vettvang. Lík Rasouls, Shivu, Anitu og Armins fundust nærri bátnum, en Artins er enn saknað. Yasin segir að öldurnar hafi borið hann á haf út. 

Systkini Shivu, sem eru bæði búsett í Evrópu, báru kennsl á lík fjölskyldunnar. Þau fengu þau afhent til greftrunar á föstudag, 13. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert