Baski framseldur

Maria Natividad Jauregui Espina, í höndum lögreglumanna í Madríd. Myndinni …
Maria Natividad Jauregui Espina, í höndum lögreglumanna í Madríd. Myndinni dreifði spænska lögreglan. AFP

Stjórnvöld í Belgíu framseldu í dag til Spánar fyrrverandi félagsmann aðskilnaðarsveitar Baska, ETA, sem hefur verið eftirlýstur á Spáni fyrir að myrða spænskan liðsforingja árið 1981.

Spænskir lögreglumenn flugu til Belgíu til að sækja konuna, Maria Natividad Jauregui Espina, og leiða um borð í flugvél til Spánar. 

Jauregui Espina hefur verið búsett í belgísku borginni Ghent síðustu ár, á flótta undan réttvísinni. Yfirréttur í Belgíu samþykkti framsal hennar á fimmtudag, eftir að því hafði þrisvar verið hafnað í undirrétti.

Jauregui Espina hefur starfað sem kokkur í Belgíu, en hún var eftirlýst fyrir þátttöku sína í nokkrum aðgerðum ETA á níunda áratugnum, þar á meðal morðinu á liðsforingjanum árið 1981. Þá var hún einnig eftirlýst vegna „aðildar að glæpasamtökum“.

Aðskilnaðarsveitir Baska voru aðgerðahópur sem stofnaður var á sjötta áratugnum til að berjast fyrir sjálfstæði Baskahérðanna frá Frakklandi og Spáni. Þau voru skilgreind sem hryðjuverkasamtök af helstu ríkjum Evrópu og Evrópusambandinu.

Eftir að leiðtogar þeirra voru handteknir boðuðu samtökin varanlegt vopnahlé árið 2011 og lögðu loks upp laupana árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert