Útgöngubann í Kaliforníu

Sýnatökur á bílastæði við Dodgers-leikvanginn í Los Angeles, Kaliforníu.
Sýnatökur á bílastæði við Dodgers-leikvanginn í Los Angeles, Kaliforníu. AFP

Yfirvöld í Kaliforníu hafa sett á útgöngubann á næturnar í tilraun til þess að stemma stigu við veldisvexti kórónuveirunnar í ríkinu og í Bandaríkjunum öllu. Íbúar í 41 af 58 sýslum Kaliforníu mega nú ekki vera á ferli eftir klukkan 22 á kvöldin og þar til klukkan 05 á morgnana. Á þessu eru þó einhverjar undantekningar, til að mynda mega veitingastaðir bjóða upp á heimsendingu eftir klukkan 22 svo eitthvað sé nefnt. 

Þetta tilkynnti ríkisstjóri Kaliforníu, Gavin Newsome, í dag en hann var harðlega gagnrýndur í vikunni fyrir að hafa þegið afmælisboð vinar síns, í trássi við gildandi sóttvarnarlög í ríkinu. Hann baðst afsökunar á atvikinu og sagði það mundu verða honum mikill lærdómur.

Tölurnar líta ekki vel út

Um 12 milljón manns hafa nú smitast í Bandaríkjunum eða um 3,6% landsmanna. Það er líkt og ef 13 þúsund manns hefðu smitast hér á landi. Hér á landi hafa þó aðeins 5.277 smit greinst.

Á allra síðustu dögum hafa fleiri en 2.000 manns látist af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum, það hefur ekki gerst síðan í maí. Samkvæmt John Hopkins-háskóla hafa 255 þúsund manns látist í Bandaríkjunum frá upphafi faraldursins.

Viðbragðsteymi Hvíta hússins kom nýverið saman opinberlega í fyrsta sinn í marga mánuði. Í viðbragðsteyminu er meðal annars varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, en eiginkona hans Karen bauð nýverið til jólaföndursamkomu á heimili þeirra hjóna. Af frétt BBC að dæma var öllum þingmönnum Bandaríkjaþings boðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert