Þriggja ára stúlku nauðgað á salerni

Tjaldbúðirnar sem voru reistar í Kara Tepe.
Tjaldbúðirnar sem voru reistar í Kara Tepe. AFP

Grunur leikur á að þriggja ára gamalli afganskri telpu hafi verið nauðgað á salerni í flóttamannabúðum á grísku eyjunni Lesbos í gærkvöldi.

Að sögn lögreglu er málið í rannsókn en stúlkan fannst blóðug og rænulítil á salerni í Kara Tepe búðunum seint í gærkvöldi. Að sögn yfirvalda hefur læknir í búðunum staðfest að barnið hafi verið beitt ofbeldi en frekari rannsókn stendur yfir af hálfu lækna. 

Yfir 7.300 flóttamenn og hælisleitendur hafast við í búðunum en þeim fjölgaði gríðarlega í september þegar stærstu flóttamannabúðir Evrópu, Moria, brunnu til kaldra kola í september. 

Vegna þessa búa fleiri þúsund flóttamenn í tjaldbúðum sem settar voru upp á Kara Tepe svæðinu í haust og í vikunni hefur rignt gríðarlega á Lesbos með þeim afleiðingum að tjaldbúðirnar eru umluktar vatni.

„Það eru svo mörg tjöld rennandi blaut og enginn þurr staður í boði. Við óttumst að margir eigi eftir að veikjast,“ segir í færslu hóps sjálfboðaliða á Facebook.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti fyrr í mánuðinum að koma upp nýrri flóttamannamiðstöð á Lesbos fyrir september 2021. Aðstöðu sem stenst nútímakröfur. Miðstöðin er samstarfsverkefni ESB, grískra yfirvalda og stofnanna á vegum ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert