Fengu leyfi Íslands til að falsa skjöl

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Bandaríska dómsmálaráðuneytið gerði síðasta sumar grein fyrir nýjum sönnunargögnum til að stuðnings máli sínu gegn Julian Assange, stofnanda WikiLeaks. Í uppfærðri ákæru var Assange sakaður um að hafa mælst til þess að hakkarar brytust inn í tölvukerfi íslenskra stjórnvalda og stælu upplýsingum sem yrði lekið í því skyni að niðurlægja ríkisstjórnina. 

Bandaríska alríkislögreglan og saksóknarar á Manhattan í New York voru nærri því að ákæra WikiLeaks árið 2011 vegna þessara ásakana, en á það var lokað af hærra settum ráðamönnum sem vildu einblína á meintar njósnir Assange í Virginíu-ríki. 

Ríkisstjórn Barrack Obama ákvað á endanum að sækja Assange ekki til saka fyrir njósnir vegna áhyggja af 1. grein bandarísku stjórnarskrárinnar, en málið var tekið upp að nýju á stjórnartíð Donalds Trump Bandaríkjaforseta vegna mótmæla saksóknara sem unnu að málinu. 

Í uppfærðri ákæru sem Washington Post gerði grein frá síðasta sumar er Assange sakaður um að hafa beðið ungling um að ná á ólöglegan hátt upptökum af símtölum stjórnmálamanna á Íslandi. Umræddur unglingur, hakkarinn Sigurður Þórðarson eða Siggi hakkari, var yfirheyrður af saksóknurum árið 2019. Assange og Sigurður eru sagðir hafa í sameiningu gert tilraun til að afkóða gögn sem stolin voru af íslenskum banka. Assange á að hafa verið reiður út í íslensk stjórnvöld sem lokuðu á samning sem hefði gert WikiLeaks kleift að setja upp vefþjón í Finnlandi. 

Í júní 2011 handtók bandaríska alríkislögreglan Hector Monsegur, hakkara sem gekk þá undir nafninu Sabu. Alríkislögreglan fyrirskipaði Sabu að biðja Sigurð um að sanna að hann ynni með Assange. Sigurður sýndi þá Assange í gegnum myndavél á farsíma hans og setti myndbandið síðan á Youtube. Alríkislögreglan gerði afrit af myndbandinu áður en Sigurður eyddi því. 

Með samþykki íslenskra yfirvalda útbjuggu bandarísk yfirvöld fölsuð skjöl sem Sabu kom síðan áleiðis til Assange fyrir tilstilli alríkislögreglunnar. Með þessu vildu bandarísk yfirvöld sanna að Assange væri í raun hakkari en ekki útgefandi.

mbl.is