Assange vill mæta í jarðarför Westwood

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks.
Julian Assange, stofnandi WikiLeaks. AFP

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, mun fara fram á leyfi til að yfirgefa Belmarsh-fangelsið í Lundúnum til þess að vera viðstaddur jarðarför Vivienne Westwood.

Fatahönnuðurinn lést síðasta fimmtudag, 81 árs að aldri, en hún var mikill stuðningsmaður og vinur Assange í meira en áratug. Westwood hannaði brúðarkjól eiginkonu hans, Stellu, en hún giftist Assange í Belmarsh-fangelsinu í mars á síðasta ári.

Stella Assange, sagði við BBC að eiginmaður hennar og Westwood hefðu átt náið og persónulegt samband. Hún heimsótti Assange reglulega á meðan hann dvaldi í sendiráði Ekvador í Lundúnum, sem og í Belmarsh-fangelsinu frá árinu 2019.

„Ég veit að Julian myndi vilja heiðra hana,“ sagði hún, en upplýsingar um jarðarför Westwood hafa ekki verið birtar opinberlega.

Ólíklegt að beiðnin verði samþykkt

Talsmaður breska dómsmálaráðuneytisins sagði ólíklegt að slík beiðni yrði samþykkt þar sem leyfi af þessu tagi væri ætlað nánum ættingjum. Hins vegar væru reglurnar ekki skýrar og væri það í höndum fangelsisstjóra að ákveða í hverju tilviki fyrir sig.

Assange er eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir að hafa lekið trúnaðarupplýsingum Bandaríkjahers árin 2010 og 2011. Bresk stjórnvöld hafa samþykkt framsalsbeiðni hans til Bandaríkjanna, en Assange hefur áfrýjað þeirri ákvörðun til hæstaréttar í Lundúnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert