Treysta á að Evrópa stöðvi framsal Assange

Faðir og bróðir Assange fagna loforði Jean-Luc Melenchon um franskan …
Faðir og bróðir Assange fagna loforði Jean-Luc Melenchon um franskan ríkisborgararétt. AFP

Faðir og bróðir Julian Assange, stofnanda Wikileaks, treysta á evrópska þingmenn til að koma í veg fyrir að Bretland framselji Assange til Bandaríkjanna og fagna loforði franska stjórnmálamannsins Jean-Luc Melenchon um ríkisborgararétt.

Yfirvöld í Bretlandi samþykktu í dag framsalsbeiðni Bandaríkjanna yfir Assange og hefur hann tvær vikur til þess að áfrýja ákvörðuninni.

Þingmenn víða styðji Assange

Gabriel Shipton, bróðir Assange, telur mikla möguleika á að framsalið verði stöðvað. „Við finnum fyrir miklum stuðningi meðal Evrópuþjóða,“ sagði hann á blaðamannafundi í New York í dag.

Melenchon sagðist ætla að veita Assange franskan ríkisborgararétt, ef hann vinnur þingkosningarnar. Mun hann þá óska eftir því að Assange verði sendur til Frakklands.

John Shipton, faðir Assange, sagði að hvert einasta þing í Evrópu, auk Mexíkó og þjóða í Suður-Ameríku, hefði þingmenn sem styðja Assange.

Assange er eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir að hafa lekið trúnaðarupplýsingum Bandaríkjahers árin 2010 og 2011.

mbl.is