Stór rannsókn á Covid-meðferð hafin í Bretlandi

Frá Covid-sjúkraflutningum í Bretlandi. Heilbrigðiskerfið þar í landi á fullt …
Frá Covid-sjúkraflutningum í Bretlandi. Heilbrigðiskerfið þar í landi á fullt í fangi með að kljást við faraldurinn. AFP

Stór rannsókn á meðferð sem vonast er til að komi í veg fyrir að Covid-sjúklingar veikist alvarlega er hafin í Bretlandi. Seinni partinn í gær hlaut fyrsti sjúklingurinn meðferðina á Hull Royal Infirmary spítalanum.

BBC greinir frá þessu.

Meðferðin gengur út á það að sjúklingar anda að sér prótíninu interferón beta sem líkaminn framleiðir þegar hann fær veirusýkingu.

80% minni líkur á alvarlegum sjúkdómi

Vonir standa til þess að prótínið muni örva ónæmiskerfið og búa frumur undir það að berjast við veirur. 

Fyrstu niðurstöður benda til þess að meðferðin minnki líkurnar á því að sjúkdómur Covid-19 sjúklings verði mjög alvarlegur, til dæmis svo alvarlegur að viðkomandi þurfi á öndunarvél að halda, um tæp 80%.

Meðferðin var þróuð á Southhampton háskólasjúkrahúsinu og er framleidd af líftæknifyrirtækinu Synairgen.

mbl.is