37 til rannsóknar vegna dauðsfallsins í þinginu

Alls eru 37 til rannsóknar vegna dauða lögregluþjónsins.
Alls eru 37 til rannsóknar vegna dauða lögregluþjónsins. AFP

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur 37 manns til rannsóknar vegna dauða lögreglumannsins Brian Sicknick við þinghús Bandaríkjanna í síðustu viku. Þetta kemur fram í minnisblaði lögreglunnar, sem New York Times hefur undir höndum.

Sickner lést eftir að slökkvitæki hafði verið kastað að honum í þinghúsinu er ofbeldisfullir stuðningsmenn Donalds Trumps, fráfarandi Bandaríkjaforseta, völsuðu um ganga þinghússins að því er tveir lögreglumenn á vettvangi segja. Sicknick lést af sárum sínum á spítala.

Fjórtán lögreglumenn til viðbótar særðust í átökunum við múginn.

Alríkislögreglan býr sig nú undir frekari óeirðir í Washington og höfuðborgum allra ríkja Bandaríkjanna í aðdraganda embættistöku Joe Bidens, sem tekur við af Trump á miðvikudag. Í minnisblaðinu segir að eftirlitsstofnanir hafi séð tilraunir frá Kína, Íran og Rússlandi þar sem reynt er að auka ólguna í landinu.

AFP

Frægasta andlit innrásarinnar, maðurinn í bjarnarfeldinum, Jake Angeli, er enn í haldi lögreglu. Farið hefur verið fram á gæsluvarðhald yfir honum enda segja saksóknarar ljóst að hann muni annars snúa aftur til Washington til að verða viðstaddur embættistöku Bidens.

Þá hefur maðurinn með plasthandjárnin, Rendall Brock, verið handtekinn en hann er sagður hafa ætlað að taka þingmenn demókrata fasta. Brock, sem er fyrrum hermaður í Afganistan og Írak, náðist eftir að fyrrverandi eiginkona hans hafði borið kennsl á hann á fréttamyndum og hringt í alríkislögregluna. 

Hefur hann verið kærður fyrir ofbeldisfullt innbrot og óspektir á almannafæri auk að hafa vísvitandi brotist inn á svæði sem ekki er opið almenningi.

mbl.is

Bloggað um fréttina