Níu í haldi vegna árásar á ungling

Mynd af Yuriy í auglýsingu þar sem vitna að árásinni …
Mynd af Yuriy í auglýsingu þar sem vitna að árásinni er leitað. AFP

Lögreglan í París hefur handtekið níu ungmenni fyrir hrottalegt ofbeldi í garð 15 ára gamals drengs fyrr í mánuðinum. Ofbeldið var tekið upp og myndskeiðinu dreift á samfélagsmiðlum.

Árásin var gerð í 15. hverfi borgarinnar, skammt frá verslunarmiðstöð og var fjöldi fólks vitni að árásinni en drengurinn var að koma úr skólanum. 

Átta þeirra sem eru í haldi eru ólögráða en einn er aðeins eldri. Þeir eru sakaðir um morðtilraun, ofbeldi og þjófnað að sögn saksóknara.

Hettuklæddir og huldu andlit

Nataliya Kruchenyk, móðir drengsins sem varð fyrir árásinni, Yuriy, segir að hann hafi fyrst komist til meðvitundar eftir árásina í þessari viku. Yuriy hafi farið úr skólanum ásamt vinum sínum þegar hann var umkringdur hópi fólks líkt og sést á öryggismyndavélum.

Árásarmennirnir, sem sumir voru hettuklæddir og huldu andlit sitt, spörkuðu í hann og börðu þar sem hann lá á jörðinni. Jafnframt var einhverju vopni beitt.

Yuriy var með skrúfjárn í vasanum þegar ráðist var á hann að sögn saksóknara. Lögregla telur mögulegt að árásin tengist gengjastríði. 

Fjölmargir þingmenn og þekktir einstaklingar hafa gagnrýnt árásina harkalega. Þar á meðal knattspyrnumaðurinn Antoine Griezmann og leikarinn Omar Sy úr þáttaröðinni vinsælu Lupin.  

EricDupond-Moretti dómsmálaráðherra segir að þeim sem stóðu á bak við árásina verði refsað.

Sjá nánar hér

Beaugrenelle-verslunarmiðstöðin en árásin var gerð fyrir utan hana.
Beaugrenelle-verslunarmiðstöðin en árásin var gerð fyrir utan hana. AFP
mbl.is