Sagðir hafa lamið 16 ára pilt til bana

Fólk á gangi í Helsinki í janúar síðastliðnum.
Fólk á gangi í Helsinki í janúar síðastliðnum. AFP

Þrír unglingar, sem eru ákærðir fyrir að hafa lamið 16 ára pilt til bana eftir að hafa lagt hann einelti í margar vikur, komu fyrir dóm í Finnlandi í dag. Málið hefur vakið mikinn óhug í landinu.

Ráðist var á piltinn „með sadískum hætti“ í allt að fjórar klukkustundir þangað til hann lést 4. desember í almenningsgarði í norðurhluta Helsinki af unglingunum þremur sem tóku einnig myndband af árásinni, að sögn lögreglunnar.

Neita sök

Þremenningarnir neita því að hafa myrt piltinn. Saksóknarar segja að hann hafi dáið af völdum heilaskaða og vegna þess að lunga hans féll saman sökum brotinna rifbeina.

„Þetta var enginn leikur, heldur hreint og klárt ofbeldi,“ sagði saksóknarinn Satu Pomoell í dómsalnum.

Árásarmennirnir, sem voru 15 og 16 ára þegar árásin var gerð, eru sakaðir um morð en einnig rán og árás í átta mismunandi liðum í vikunum sem leiddu til dauða piltsins, að því er kom fram í dómskjölum. Fjórði pilturinn hefur einnig verið ákærður fyrir rán.

Vegna aldurs árásarmannanna og fórnarlambsins hefur árásinni ekki verið lýst í smáatriðum.

Leituðu ekki að honum

Rannsókn fjölmiðilsins Yle, sem byggði á viðtölum við foreldra og kennara fórnarlambsins, leiddi líkur að því að starfsfólk hjúkrunarheimilis þar sem pilturinn bjó hafi neitað hefja leit að honum eftir að hann kom sneri ekki aftur eins og hann var vanur. Lík hans fannst ekki fyrr en 7. desember. Lögreglan er að kanna hvort einhverjar frekari kærur verða lagðar fram vegna þess.

Búist er við að dómsmálinu ljúki 3. mars. Dómur verður líkast til kveðinn upp síðar á árinu.

Samkvæmt opinberum tölum verður næstum helmingur unglinga á aldrinum 14 til 16 ára sem býr á hjúkrunarheimilum fyrir einelti eða er hótað ofbeldi.

mbl.is