Sex milljónir undir rúmdýnunni

Yngri maðurinn, sem grunaður er um að hafa aðstoðað þann …
Yngri maðurinn, sem grunaður er um að hafa aðstoðað þann eldri, geymdi 390.000 norskar krónur undir rúmdýnunni sinni og kvað féð ætlað til að greiða fyrir hjartaaðgerð föður hans í Sýrlandi. Ákæruvaldið kveðst hafa sönnunargögn sem sýni að mennirnir hafi sent alls 465.000 norskar krónur til Ríkis íslams í Sýrlandi árið 2017. Ljósmynd/PST

Aðalmeðferð í máli tveggja manna á fertugs- og fimmtugsaldri hefst fyrir Héraðsdómi Óslóar 9. apríl en þeim eldri er gefið að sök að hafa gengist fyrir fjársöfnun til styrktar hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams og sent allt að 465.000 norskum krónum, jafnvirði tæpra sjö milljóna íslenskra, til Sýrlands tímabilið júlí til desember 2017.

Yngri maðurinn, sem er sýrlenskur ríkisborgari, er ákærður fyrir að hafa aðstoðað hinn við brotin með því að annast sjálfar millifærslurnar en norska öryggislögreglan PST fann 390.000 norskar krónur, jafnvirði tæpra sex milljóna íslenskra króna, faldar undir rúmdýnu mannsins við húsleit á heimili hans í fyrra eftir að fylgst hafði verið með mönnunum um hríð.

Gaf maðurinn þá skýringu á fénu í rúminu að hann sendi fé til fjölskyldu sinnar og vina í Sýrlandi, þessir tilteknu peningar hafi átt að greiða fyrir hjartaaðgerð föður hans, en hann liggur enn fremur undir grun um að hafa tekið við og miðlað áfram til útlanda, þar á meðal Sýrlands, fé frá um 30 manna hópi og nemi heildarupphæðin í þeim hluta málsins fjórum milljónum norskra króna, jafnvirði tæpra 60 milljóna íslenskra.

Líta fjármögnun hryðjuverkahópa alvarlegum augum

Ákært er fyrir brot gegn 135. grein norsku hegningarlaganna sem leggur bann og allt að tíu ára fangelsisrefsingu við því að útvega, taka við, senda eða að öðru leyti sýsla með fjármuni með þeim ásetningi, eða vitneskju um, að þeir að hluta eða í heild skuli nýtast til að fremja hryðjuverk, nýtast í þágu hóps eða félagsskapar sem hyggst fremja hryðjuverk eða í þágu fyrirtækis sem vinnur að sama markmiði.

Frederik G. Ranke héraðssaksóknari segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, að umfangsmikil rannsókn PST hafi leitt til handtöku mannanna. „Ákæruvaldið lítur fjármögnun hryðjuverkahópa mjög alvarlegum augum. Að háar fjárhæðir séu sendar héðan til Sýrlands og til einstaklinga sem tengjast ISIL [Ríki íslams] er mjög alvarlegt mál,“ segir saksóknari.

Hann kveður ákæruvaldið munu leggja fram sönnunargögn sem sýni svo enginn vafi leiki á, að mennirnir hafi aðhafst af fullum ásetningi þegar þeir sendu féð til stríðshrjáðra svæða Sýrlands. Vildi saksóknari þó ekki tjá sig um þau gögn að sinni.

Svein Holden, verjandi eldri mannsins, kvað skjólstæðing sinn lýsa yfir sakleysi í málinu, Harald Otterstad, verjandi hins, segir sinn mann einnig neita öllum áburði, auk þess sem hann kveðist engin tengsl hafa við hryðjuverkamenn og sé verulega brugðið yfir ákærunni.

NRK

NRKII (peningarnir til að greiða fyrir hjartaaðgerð föður)

Document.no

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert